Hárrétt hjá Steingrími

Þetta er hárrétt hjá Steingrími.  Það er ótrúlega mikil ESB slagsíða í því sem fram kemur í fjölmiðlum og umræðuþáttum.  Mun meiri en maður heyrir í almennri umræðu.  Vissulega er til fólk úr öllum stéttum sem er hlynnt ESB en málflutningurinn í fjölmiðlum er klárlega ekki hlutlaus.

VG á að hafa náð þessum þingstyrk þrátt fyrir að vera á móti ESB og Samfylkingin náð sinni niðurstöðu vegna ESB.  Samt jókst fylgi Samfylkingar ekki nema um 3% frá því í síðustu kosningum, þrátt fyrir að hafa fengið Jóhönnu um borð sem ég er sannfærður um að hefur dregið að minnsta kosti jafn mikið til Samfylkingar og ESB.  Ástæðan fyrir því að Samfylkingin er stærst er sú hvað Sjálfstæðisflokkurinn minnkaði mikið en ekki hvað Samfylkingin stækkaði mikið, fylgi Samfylkingar er minna en Sjálfstæðismanna síðast.


mbl.is Elítan vill í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonandi leggur hann orðið "Evróvisjón" af fyrir fullt og allt

Versta nýyrði sem komið hefur inn í íslenska umræðu undanfarin ár er orðið "Evróvisjón".  Mér skilst að þetta orðskrípi sé ættað frá fyrrverandi málfarsráðunauti RÚV en ég sel þá sögu ekki dýrar en ég keypti hana.

Evró er íslenskt forskeyti og allt í lagi með það.  Visjón er hins vegar ekki íslenskt orð að nokkru leyti.  Að blanda þessu tvennu saman í eitt orð er fullkomin móðgun við málið og ætti ekki að heyrast hjá sjálfu ríkisútvarpinu sem hefur ríkar skyldur þegar kemur að varðveislu tungumálsins.

"Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva" má stytta í "Evrópusöngvakeppnina" ef menn vilja.  Þar er um að ræða fínt íslenskt orð.  Það getur vel verið að þetta sé ekki eina söngvakeppnin í Evrópu en allir vita hvað um er rætt.  Síðan er auðvitað hægt að nota enska orðið "Eurovision" þótt slíkar enskuslettur séu auðvitað ekki æskilegar.  Það að blanda þessu tvennu saman í eitt orð sem hvorki er íslenskt né enskt er hins vegar skelfileg misnotkun á málinu, í raun báðum þessum tungumálum.

Um leið og ég býð nýjan málfarsráðunaut velkomin til starfa vona ég að hann eyði þessu orði "Evróvisjón" út úr málnotkun Ríkisútvarpsins fyrir fullt og allt.  Það væri gott fyrsta verk hans í starfi, nú í maímánuði þegar Evrópusöngvakeppnin er í öllum fjölmiðlum alla daga.


mbl.is Nýr málfarsráðunautur Rúv
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrning - ...og hvað svo?

Umræðan um kvótakerfið einkennist af hagsmunapoti og því að menn eru að reyna að rugla fólk í rýminu.  Menn segja: "Þetta er óréttlátt kerfi vegna þess að það fá ekki allir að veiða sem vilja veiða." Þess vegna finnst sumum skynsamlegt að ríkið leysi til sín þessar veiðiheimildir en eins og þú virðist fólk ekki spyrja hvað eigi að gera svo.  Fólk vill "gagnsæjar reglur sem byggjast ekki eingöngu á því hverjir hafa mesta peninga.".

Upphaf kerfisins má rekja til þess að í lok áttunda áratugarins þá voru skipin að verða svo stór og öflug að þau gátu auðveldlega veitt allan fiskinn í sjónum á tiltölulega skömmum tíma.  Þá var ljóst að ekki gátu allir veitt jafn mikið og þeir vildu veiða.  Sumir myndu þurfa að hætta rekstri og snúa sér að öðru.  Spurningin var hvernig ætti að fara að þessu sem öllum var ljóst að yrði mjög sársaukafullt ferli um allt land og gæti haft gríðarleg áhrif á heilu byggðarlögin.

Leiðirnar voru í grundvallaratriðum tvær: 

a) Stjórnmálamennirnir myndu dreifa hinum takmörkuðu auðlindum sem í boði væru á milli manna á grundvelli einhverra reglna sem klárt er að öllum sem ekki fengju nóg að eigin mati þætti ósanngjarnar (eins og er tilfellið í dag) hversu gagnsæjar sem þær væru .

b) Láta markaðinn sjá um skiptinguna.  Sá sem fengi hæsta framlegð úr hverju kílói af fiski gæti keypt veiðiheimildir af þeim sem fengi lakari framlegð og sæi hag sínum betur borgið með því að selja kvótann en eiga hann.  Þannig myndu veiðiheimildirnar smám saman safnast á hendur þeirra sem gætu látið þær skila þjóðarbúinu mestum arði.  Hinir yrðu að snúa sér að öðru.  Á sama hátt og í dæmi a) þykir þeim þetta ósanngjarnt sem ekki fá að veiða eins mikið og þeir vilja.  Í núverandi kerfi er hámark þannig að einn aðili má hámark eiga eitthvað í kringum 10% af kvótanum til að tryggja dreifingu.  Það dregur vissulega úr heildarábatanum en einhvers staðar verður að draga línuna og það er mikilvægt að t.d. 1-2 aðilar geti ekki eignast allan kvótann.

TILFÆRSLA Á KVÓTA

Það er mikilvægt að það sé á hreinu að við erum alltaf að tala um ákveðið tiltekið magn af fiski þannig að ef kíló er flutt milli staða þá missir einhver vinnuna á einum stað um leið og annar fær vinnu á öðrum sama í hvaða kerfi það er. 

ÖNNUR KERFI 

Þetta þýðir að þegar búið er til kerfi við hliðina á hinu kerfinu, t.d. byggðarkvóti, þá er verið að taka vinnu frá einum, stjórnmálamennirnir seilast ofan í krukkuna og rétta Gunnu og Gunnari vinnu sem Jón og Jóna höfðu áður.  Það þýðir að Jón og Jóna eru fúl í stað Gunnu og Gunnars áður.  Það er nefnilega ekki til kerfi sem allir eru sáttir við og það er ekki til neitt gagnsætt kerfi sem hægt er að nota.

Á að deila þessu út miðað við íbúafjölda?  Þá fær höfuðborgarsvæðið 70% kvótans auk þess sem Egilstaðir fá mesta kvóta á Austfjörðum og Selfoss og Hveragerði stóran hluta kvóta Sunnlendinga.  Er það eðlilegt?  Það er gagnsætt.

Á að setja skilyrði um að það sé höfn á staðnum?  Þá fara öll sveitarfélög í þá vinnu að byggja upp svakalegar hafnir hvort sem þörf er á þeim eða ekki.

Á að miða við landað tonn í tiltekinni höfn?  Þá fara skip sem eru að veiðum sunnan við land að sigla til Vopnafjarðar eða Raufarhafnar með fiskinn sem kostar mikið í tíma, mannafla, eldsneyti og öðru auk þess sem það er óumhverfisvænt út frá t.d. olíunotkun og óþarfa skipaumferð.  Auk þess verður fiskurinn eldri þegar hann kemst á markað og því fæst lægra verð fyrir hann.

Réttlátt kerfi er ekki til.  Núverandi kerfi er það réttlátasta sem til er þótt erfitt sé.

ÞAÐ SEM MÁ BREYTA 

Hins vegar er full ástæða til að skoða atriði eins og kvótaleigu og það að einhverjir sem ekki eiga skip eigi kvóta en noti hann ekki sjálfir.  Það er engin ástæða til þess að viðkomandi geti átt kvóta og full ástæða til að breyta þeim reglum.  Ég hef hins vegar ekki næga þekkingu á einstökum "smærri" þættum kerfisins til að geta útlistað það svo eitthvað vit sé í.

STOFNARNIR 

Ástæða þess að stofnarnir eru ekki nægilega stórir er ekki sú hvernig kökunni er skipt heldur að ákveðið er að hafa hana of stóra.  Næstum allir sjávarútvegsráðherrar í gegnum tíðina hafa ákveðið að veiða meira en Hafró leggur til.  Aðrar ástæður geta verið brottkast, ofveiði á átu (t.d. loðnu) og fleiri þættir.  Það hvort fyrirtæki A eða fyrirtæki B veiðir tiltekinn fisk hefur ekki áhrif á stofnstærð.  Þar er verið að rugla í umræðunni.

 AÐ LOKUM

Ég hef engra beinna hagsmuna að gæta annarra en þeirra að vera Íslendingur og gera mér grein fyrir því að þetta er gríðarlega mikilvægt mál fyrir Ísland og Íslendinga og það er gríðarlega mikilvægt að þetta kerfi verði ekki eyðilagt í popúlisma.


mbl.is Segja fyrningu aðför að 32 þúsund fjölskyldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki hægt að sækja um aðild á næsta kjörtímabili

Þar sem stjórnarskrárbreytingin fór ekki í gegn á þessu þingi þá er ekki hægt að fara í viðræður nema að breyta stjórnarskránni.  Ákveði ný ríkisstjórn að fara í viðræður þá verður hún að breyta stjórnarskránni og boða til nýrra kosninga þannig að tvö þing samþykki breytinguna.

Það er því fræðilega útilokað að sækja um aðild á því kjörtímabili sem hefst í næstu viku.

Sé þetta lykilmál hjá Samfylkingunni þá verða nýjar Alþingiskosningar strax í haust ef þeim tekst að breyta stjórnarskránni, sem ekki er víst.  Það er líka algjörlega óvíst hvort þessir flokkar ná sama kosningasigrinum í þeim kosningum og nú um helgina sem aftur gerir það óvíst að þeir geti staðfest breytinguna á nýju þingi eftir haustkosningarnar.  Ég er því ekki að sjá VG vera tilbúna að slíta komandi þingi neitt á næstunni því þeir munu aldrei endurtaka annan eins sigur og núna.

Ég held að þessi ESB barátta sé töpuð, a.m.k. út næsta kjörtímabil.  Sorrý.


mbl.is ESB blandar sér í kosningabaráttu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðstoð en ekki peninga

Það er ekki hægt að ljúka máli eins og þessu með peningagreiðslu.  Það er einfaldlega ekki hægt að meta þetta til fjár.  Þá eru einstaklingar í þessum hópi sem munu ekkert græða á að fá seðlabúnt í hendurnar, nema ef síður sé.

Það sem á að gera er að setja saman teymi sem tekur þessa menn og fjölskyldur þeirra upp á arma sér.  Við eigum að tryggja að þeir fái alla þá aðstoð sem hægt er að veita þeim, klæðskerasaumaða að þörfum hvers og eins það sem eftir er ævinnar.  Það getur vel verið að það verði miklu dýrara en einhverjar aflátsgreiðslur en það er samt sem áður eina rétta leiðin til að klára þetta mál.


mbl.is Engin sátt í Breiðavíkurmáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orkuveitan taki við strætó - Veitir fólki

Ég hef lengi talað fyrir þeirri hugmynd að Orkuveita Reykjavíkur taki rekstur Strætó bs. yfir.  Almenningssamgöngukerfið verði rekið eins og önnur veitukerfi fyrirtækisins.

Hérna er blogg frá því í september 2008 þar sem ég útlista þetta nokkuð nákvæmlega.


mbl.is Eigið fé Strætó bs. neikvætt um 57% af eignum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ákvörðunarferlið um ESB sem flestir flokkar eru orðnir sammála um

Þetta er ekkert flókið ferli.  Það eru allir flokkar sammála um ferlið, nema reyndar Samfylkingin sem vill fara beint í lið 3a og þaðan í 4a.  Þeir munu þurfa að beygja sig undir vilja hinna flokkanna.

Ferlið verður eftirfarandi og virkar ágætlega:
1. Þingið samþykkir þær forsendur sem við leggjum til grundvallar aðildarsamningum og breytir stjórnarskránni þannig að hægt sé að ganga í málið.
2. Þjóðin greiðir atkvæði um það hvort fara eigi í aðildarviðræður á þeim forsendum sem Alþingi samþykkti.

3a. Ef þjóðin segir já: Aðildarviðræður.
3b. Ef þjóðin segir nei: Ekki aðildarviðræður.

4a. Þjóðin greiðir atkvæði um niðurstöðu aðildarviðræðna.

5a. Ef þjóðin segir já: Inngönguferli í ESB hefst.
5b. Ef þjóðin segir nei: Þingið tekur ákvörðun um hvort fara eigi aftur í aðildarviðræður miðað við upphaflegar forsendur og stefna á að ná betri samningum sem þjóðin samþykkir (aftur í 3a) EÐA hvort bakka út úr aðildarviðræðum (aftur í 3b).

Þetta er ekki flókið.


Æi blessaður karlinn - Af hverju setti hann fjölmiðlafrumvarpið ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu??

Davíð er auðvitað öflugur ræðumaður en það er bara ekki trúverðugt þegar maður sem staðið hefur í stafni í þjóðfélagsins í 20 ár segir að allt sé öðrum að kenna en honum og að allir aðrir séu vondir og óhæfir sem eru á annarri skoðun en hann.

Ef hann vildi koma fjölmiðlafrumvarpinu í gegn á sínum tíma af hverju lagði hann það ekki bara fyrir þjóðina? Það eina sem Ólafur Ragnar gerði var að vísa málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu enda hefur hann ekki völd til annars.

Maður veit ekki alveg hvort salurinn hló AÐ honum eða MEÐ honum. Þetta var vissulega oft fyndin ræða enda maðurinn almennt skemmtilegur og góður penni, en svolítið í anda Georgs Bjarnfreðarsonar enda stemningin í ræðunni svolítið þess leg.

Alzheimerbrandarinn var subbulegur.  Svona segir maður ekki Davíð, ef maður hefur hlotið lágmarksuppeldi.


mbl.is Víkingar með Samfylkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað á maður að kjósa?

Ég skilgreini mig einhvers staðar klofvega ofan á miðjunni, klárlega vinstra megin við þá hægrisinnuðustu en alveg örugglega hægra megin við flesta vinstri menn sem ég þekki.

Ég er ekki flokksbundinn og hef í gegnum tíðina kosið þá sem mér hafa þótt líklegastir til að standa sig í stykkinu hverju sinni.

Á hinn bóginn hef ég líka kosið breytinganna vegna.  Ég kaus R-listann þegar Sjallarnir voru búnir að vera í stjórn borgarinnar í áratugi.  Ég kaus Sjálfstæðismenn aftur þegar R-listinn var búinn að vera við völd í 12 ár og mér fannst kominn tími á að skipta þeim út.  Nú hafa Sjálfstæðismenn verið við völd á landsvísu í 18 ár, allt embættismannakerfið er orðið gegnsýrt af þeim og því tel ég kominn tími til að skipta.

Á maður þá að kjósa Framsókn, Samfylkinguna, VG eða nýju Borgarahreyfinguna?  Ég veit það ekki ennþá.

Líklega ekki Samfylkinguna.  Mér finnst eitthvað hálfrotið við hana.  Það er einhver fúkkalykt af henni sem mér líkar ekki við.  Mér finnst eins og þeir hafi tekið við af Framsókn við að stinga hvern annan í bakið og ég held að slík "hnífasettastjórnmál" geti aldrei orðið árangursrík.

Úff, það væri nú saga til næsta bæjar ef maður kysi VG í kosningunum núna.  Maður þarf að sjá hvað gerist þegar menn fara að kynna það sem þeir standa fyrir, sé það eitthvað.

Ekki auðveldar það stöðuna að nú kýs ég í norðaustur kjördæmi þar sem lögheimili mitt er á Akureyri þessi misserin.


Stóriðjuuppbygging á heilbrigðissviði - Rvík leggi stokk undir spítalann

Það er ánægjulegt að þetta mál sé á fullri siglingu og að Ögmundur skuli hafa haldið því gangandi áfram.  Nú er einmitt tíminn til að fara í þessa risaframkvæmd og nýta hana til að ýta byggingariðnaðinum í gang að ekki sé minnst á arkitektastofur, verkfræðistofur og þúsundir annarra sem koma að því að reisa slíkt mannvirki sem klárlega jafnast á við stóriðju þótt mengunin sé minni.

 

Ég hef líka verið á þeirri skoðun að Reykjavíkurborg eigi að nýta tækifærið þegar allt þetta svæði verður mokað upp hvort eð er og leggja göng/stokk frá Snorrabraut að Njarðargötu.  Í framtíðinni bættust þau við endann á Miklubrautargöngum sem þá væru komin frá Kringlunni og vestur að Njarðargötu.  Slíkt væri mjög skynsamleg nýting á fjármunum og því umstangi sem þarna er að fara fram.  Göngin/stokkurinn væru þá auðvitað tengd inn í sjúkrahússhönnunina. 

Lokatakmarkið (eftir 5-15 ár) væri að bæta við partinum frá Njarðargötu að Þjóðminjasafni og frá Kringlu að Grensásvegi.  Þá væri búið að sameina hverfin báðum megin Miklubrautarinnar alla þessa vegalengd og þegar flugvöllurinn fer eða minnkar á næstu áratugum yrði til eitt sameinað hverfi úr Þingholtunum og miðbænum og út í Vatnsmýri og jafnvel Skerjafjörð.


mbl.is Háskólasjúkrahús á áætlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband