Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Mussuliðið heldur innreið sína á Alþingi

Mussuliðið heldur innreið sína á Alþingi.  Ef fólk ber einhverja virðingu fyrir sjálfu sér og Alþingi þá er lágmark að vera snyrtilegur til fara.  Það skiptir miklu máli varðandi ímynd Alþingis og almennt þá fagstemningu sem fólk vill skapa á þessum vinnustað.  Það er ekkert að því að þingið sé að minnsta kosti með leiðbeinandi reglur þar að lútandi.
mbl.is Þingmenn læra góða siði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afnema leigukerfið - Halda kvótanum - Tillögur

1. Ég held að það sé almennt ekki deilt um að það er óheppilegt að fólk og fyrirtæki sem hvergi koma nálægt útgerð eigi kvóta sem það síðan leigir útgerðunum dýrum dómum.  Það kerfi þarf að afnema, til dæmis með því að skip í eigu þeirrar kennitölu sem á kvótann þurfi að veiða hann líka.  Geri þau það ekki verði kvótaeigendurnir skyldugir að selja hann hæstbjóðanda á markaði innan 12 eða 18 mánaða.  Hægt er að hugsa sér að notast væri við hæsta veidda gildi á þriggja eða fjögurra ára tímabili þannig að ef einhver veiðir 60%, 80% og 90% af sínum kvóta á þremur árum þá þurfi hann að selja 10% (nánari útfærsla óskast).

Þetta myndi gera það að verkum að alltaf væri töluvert magn af kvóta til sölu á markaði sem aftur gerði nýliðum kleift að koma inn í greinina. Þar sem það væri söluskylda á honum á 12-18 mánuðum gætu menn ekki verðlagt hann í hæstu hæðum til að koma í veg fyrir að einhver gæti keypt.  Kvóti sem ekki væri seldur á 12-18 mánuðum væri afskrifaður til ríkisins sem setti hann á markað, seldi hann og skilað hluta (ekki öllu) af söluandvirðinu aftur til fyrrverandi eigenda.

2. Kvótakerfið var sett á í upphafi níunda áratugarins þegar fólk gerði sér grein fyrir því að ákvarða þyrfti heildaraflamark þar sem veiðigeta flotans væri orðin svo mikil að hann gæti veitt allan fiskinn í sjónum á nokkrum árum ef ekkert væri að gert.  Þar með myndaðist skortur og því þurfti að útdeila þessari takmörkuðu auðlind á einhvern hátt. 

Það var hægt að gera með því að stjórnmálamennirnir útdeildu kvótanum eða með því að láta þá sem gátu veitt hagkvæmar kaupa kvóta af þeim sem kusu frekar að selja en að vera í útgerð.

Það var allan tímann ljóst að það gætu ekki allir verið í útgerð áfram sem höfðu verið í útgerð til þess tíma.  Það þurfti því að "dæma lifendur og dauða" í þessari atvinnugrein.  Stjórnmálamenn voru búnir að halda "þeim dauðu" á lífi svo árum skipti á styrkjum frá ríkinu sem hurfu eins og dögg fyrir sólu um leið og þeim hafði verið úthlutað.  Það var allan tímann vitað að þetta yrði mjög sársaukafullt fyrir sum þeirra bæjarfélaga sem misstu kvóta. 

Ef það á að taka kvótann af þeim bæjarfélögum sem nú eiga kvóta og flytja hann til hinna (heildarmagnið eykst ekki, það er einungis flutt til) þá mun fólk einfaldlega missa vinnuna í byggðarlagi A og aðrir fá vinnu í byggðarlagi B.

3. Það er mjög mikilvægt að afnema leiguliðakerfið.  Hins vegar er ekki skynsamlegt að taka kvótann af þeim sem eru á fullu í útgerð og flytja hann til þeirra sem eru stjórnvöldum þóknanlegir.

Finnist fólki núverandi kerfi óréttlátt þá verður úr hinu eitthvað enn verra þegar stjórnmálamennirnir fara að velja hverjir lifa og hverjir deyja í greininni.


mbl.is Lýsa vilja til að endurskoða fiskveiðistjórnunarlögin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nám sé ígildi vinnu þegar kemur að rétti til atvinnuleysisbóta

Það er mjög óeðlilegt að nám sé ekki reiknað sem ígildi vinnu þegar kemur að rétt til atvinnuleysisbóta.  Það á að hvetja fólk til náms og það má ekki tapa réttindum á meðan það fer í nám.  Dæmi um þetta er þegar fólk fer í nám erlendis.  Þá er mikilvægt að það geti komið heim aftur og þá fengið atvinnuleysisbætur á meðan það er að leita sér að vinnu.  Annars ílengist það erlendis og því geta liðið mörg ár áður en það kemur aftur heim. 

Það sama á við um íslenskt heilbrigðiskerfi að námsmenn sem hafa verið að fá greiðslur frá LÍN eiga að ganga beint inn í íslenskt heilbrigðiskerfi en það á ekki að taka þá 6 mánuði eins og núna að komast inn í kerfið.  Á þeim tíma þurfa þeir annað hvort að kaupa sér sérstaka tryggingu eða borga sinn lækniskostnað upp í topp.  Margir gera sér ekki grein fyrir þessu þegar þeir flytja til landsins.


mbl.is Helmingur námsmanna með vinnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hærra atvinnuleysi og stöðugleiki EÐA sveiflur og lægra atvinnuleysi?

Með krónuna sem framtíðarmynt fáum við það ástand sem við höfum búið við undanfarna áratugi, reglulegar efnahagssveiflur og verðbólguskot, hæðir og lægðir EN lágt atvinnuleysi.
Með Evrunni fáum við atvinnuleysi EN lægri verðbólgu og minni efnahagssveiflur.

Undanfarna 6 áratugi eða svo höfum við þróast úr því að vera ein vanþróaðasta þjóð Evrópu í að vera í fremstu röð. Það hefur okkur tekist meðal annars vegna eða þrátt fyrir krónuna. Krónan hefur aldrei verið lykilmynt í heiminum en hún hefur ekki komið í veg fyrir þessa þróun. Sé okkur alvara getum við gert krónuna að því sem hún var. Ekki kannski leiðandi gjaldmiðli í alþjóðlegum viðskiptum en nothæfum fyrir íslenskt efnahagslíf.

Vandamál íslensku krónunnar er vissulega skortur á trúverðugleika. Ef við viljum byggja upp þann trúverðugleika þá verður okkur að vera alvara með það og byggja upp trúverðugleika krónunnar. Ef við göngum í ESB þá þurfum við hvort eð er að notast við krónuna í 5-10 ár í viðbót.  Við þurfum því að byggja upp trúverðugleika hennar hvort eð er.  Við byggjum upp trúverðugleika krónunnar með því að vanda til þeirra aðgerða sem tökumst á hendur í efnahagsmálum.

Það er alveg öruggt að við byggjum ekki upp þann trúverðugleika ef við höldum áfram að tala krónuna niður og ákveðum með sjálfum okkur að hún sé ónýtur gjaldmiðill.

Í dag er krónan að vinna okkur gagn með því að gera íslenskt samfélag samkeppnishæfara í alþjóðlegu samhengi, þ.e. lækka laun í erlendri mynt. Lönd eins og Spánn eru í mjög slæmri stöðu eins og við, með Evruna og þar er atvinnuleysið 17,4% þar sem myntin vinnur ekki að því að gera spænskt efnahagslíf samkeppnishæfara. Fleiri lönd Evrópu eru í svipaðri stöðu með tveggja stafa atvinnuleysi.

Er hlutskipti Spánar eftirsóknarverðara en hlutskipti Íslands þessi misserin?

Er ALVEG ÖRUGGT að við veljum atvinnuleysið umfram efnahagssveiflurnar?

Af tvennu illu þá kýs ég þá rússíbanareið sem við höfum verið í undanfarna áratugi með lágu atvinnuleysi frekar en meiri stöðugleika og meira atvinnuleysi.


mbl.is Veiking gekk að mestu til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóriðja á heilbrigðissviði!

Byggjum stóriðju á heilbrigðissviði.  Núna er einmitt tíminn til að gera það á sem hagkvæmastan háttinn.  Öll tilboð í öll verk verða lægri auk þess sem við værum hvort eð er að greiða stórum hluta þeirra sem vinna við þetta atvinnuleysisbætur ef þeir væru ekki að vinna í þessu verkefni.

Nýtt sjúkrahús sparar milljarða í rekstri spítalans á næstu árum og áratugum að ekki sé minnst á aðstöðu sjúklinga og starfsmanna.


mbl.is Vill af stað með nýjan spítala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilanefndin að standa sig

Það er gott að skilanefndin er að standa sig.  Hvernig borðar maður fíl?  Einn bita í einu.
mbl.is 200 milljarðar skila sér heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á að miða árangur kosninga við þær sjálfar eða næstu kosningar á undan?

Sú umræðuhefð að miða úrslit kosninga (raungildi) alltaf við eitthvað "vænt gildi" sem þá annað hvort er niðurstaða síðustu kosninga eða niðurstöður skoðanakannanna síðustu daga fyrir kosningar er svolítið skrítin.  Síðan er árangurinn alltaf metinn sem munurinn á þessu tvennu, þ.e. raungildinu og vænta gildinu (því sem fjölmiðlamennirnir ákváðu að væri líklegt gildi af þeirra mati).  Af hverju er raungildið ekki bara skoðað sem slíkt, þ.e. niðurstöður kosninganna án þess að þær séu alltaf bornar saman við hin svonefndu væntu gildi?  Þetta er ekki gert í íþróttum og á klárlega enn síður við í kosningum.

Í kosningunum um daginn komst Sjálfstæðisflokkurinn til dæmis "á pall" og náði "silfri" í þessari keppni um atkvæði kjósenda þrátt fyrir 18 ára stjórnarsetu, bankahrun, ofurstyrki og fleira.  Ólíkt Framsóknarflokknum sem virkilega hrundi og var vart hugað líf eftir síðustu kosningar þá fannst mér Sjálfstæðisflokkurinn í raun koma ótrúlega vel út úr þessu.  Hann var auðvitað ennþá stærri í síðustu kosningum en hann fékk vissulega næst flest atkvæði í þessum sem þýðir að næst flestir Íslendingar völdu hann til að stjórna sínum málum.  Út frá lýðræðinu er því meiri stuðningur við að Sjálfstæðisflokkurinn fari í stjórn heldur en t.d. VG þar sem lægra hlutfall kjósenda kaus þá til stjórnarsetu.

Ég tek það fram að ég kaus ekki Sjálfstæðismenn og tel að þeir eigi að hvíla í einn eða tvo hringi en það breytir ekki því sem fram kemur hér að ofan.

Túlkunin um stórsigur Samfylkingarinnar finnst mér líka svolítið frjálsleg.  Flokkurinn er stærstur í dag vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn minnkaði umtalsvert en ekki vegna þess að Samfylkingin jók svo mikið fylgi sitt (3%).  Hins vegar vann flokkurinn vissulega athyglisverðan varnarsigur, hafandi verið stjórnarflokkur í hruninu.

Þá er sama frjálslega túlkunin í gangi þegar talið berst að ESB.  Talað er um skýra afstöðu kjósenda með aðildarviðræðum við ESB.  Ég get ekki með nokkru móti séð það út úr þessum kosningum.  ESB flokkurinn fékk 30% fylgi en hinir 70%.  Sá flokkur sem var mest á móti ESB (í síðustu viku), VG, jók mest fylgi sitt milli kosninga.

Hvernig stendur á því að fjölmiðlamennirnir halda þessum túlkunum á lofti?  Ég get skilið af hverju stjórnmálamennirnir gera það, þeir hafa hagsmuni af því, en ég get ekki skilið af hverju fjölmiðlafólkið gerir það - nema þeir hafi einhverja hagsmuni af því.


mbl.is Villur voru í útstrikunartölum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegt! Til hamingju Ísland!

Glæsilegt!  Til hamingju Ísland!

Hvað sem hægt er að segja um Björn Bjarnason þá tókst honum nú að koma þessu í gegn sem gæslan var búin að bíða eftir svo árum ef ekki áratugum skipti.


mbl.is Glæsilegur Þór sjósettur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gerum við ef við lendum í sporum Spánar?

Spánn er í ESB og notast við Evruna sem gjaldmiðil.  Þar er nú heljarinnar kreppa, ekki síður en á Íslandi.  Vandamál Spánverja er að vegna þess að þeir notast við Evruna þá lagar hún sig ekki að efnahagssveiflum landsins.

Á Íslandi hefur gengi íslensku krónunnar hrunið í tengslum við slæmt efnahagsástand.  Það þýðir að framleiðslan í landinu verður samkeppnishæfari á alþjóðavettvangi og viðskipti aukast smám saman á mörgum sviðum.  Þetta flýtir fyrir því að við komumst upp úr kreppunni.  Gallinn við þetta er að sveiflur eru miklar.

Spánn hefur Evruna og er þannig hluti af stærri heild.  Evrópski seðlabankinn gerir ekkert til að bregðast við kreppunni þar sem hún nær ekki yfir alla Evrópu og ef hann færi að bregðast við þá gæti það haft ofþennsluáhrif annars staðar.  Þetta þýðir að samkeppnishæfni Spánar batnar ekki (eins og í tilfelli Íslands) og því sjá þeir fram á að þurfa líklega að lækka laun töluvert til að bæta samkeppnisstöðu sína til að ná sér upp úr kreppunni.  Þetta þýðir auðvitað að kaupmáttur dregst saman sem nemur lækkuninni.  Allt þetta þýðir að það mun taka Spán langan tíma að komast upp úr lægðinni.  Það sama er að segja um Portúgal, Grikkland, Ítalíu og nú síðast Austurríki og Írland.  Stór hluti Austur-Evrópu er einnig í vondum málum.

Íslenska krónan mun því tryggja okkur stuttar en djúpar efnahagssveiflur bæði upp á við og niður á við.  Evran mun gefa grynnri en lengri efnahagssveiflur.  Nú er bara að velja.


mbl.is Deilt um þjóðaratkvæðagreiðslur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað eru Finnar að gera sem við erum ekki að gera?

Hvað eru Finnar að gera sem við erum ekki að gera?  Hvað getum við lært af þeim?
mbl.is Undir meðaltali í námsgreinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband