Hvað er að gerast í raun og veru

Harpa vinkona mín, ljósmóðir, skrifaði athugasemd á síðustu færslu mína um ljósmóðurmálin og sagðist þar undrast framgöngu mína í umræðunni sem henni hefur líklega þótt fremur kaldhranaleg.  Ég skil það viðhorf.

Stór hluti míns starfs undanfarin fimm ár hefur verið þátttaka í kjarasamningum og kjarasamningaviðræðum frá hlið atvinnurekandans.  Það hefur verið mjög fræðandi og gefið manni innsýn inn í allt annað en er alltaf í umræðunni þegar svona deilur koma upp.  Heildarmyndina sem er það sem stýrir öllu dæminu af hálfu atvinnurekandans.

Fyrst vil ég segja að ég styð auðvitað kröfur ljósmæðra heilshugar.   Veit ekki nákvæmlega hvað þær eru með í laun en geri ráð fyrir að það sé öðru hverju megin við 250-300 þúsund á mánuði fyrir dagvinnu.  Slík laun eru að sjálfsögðu út í hött fyrir sérfræðing með ígildi mastersprófs.

Ljósmæður hafa spilað þetta vel.  Þær hafa verið á jákvæðu nótunum, þéttar fyrir án þess þó að vera í neikvæða gírnum.  Þær hafa því almenningsálitið með sér og það er það mikilvægasta sem þær eiga.

Hvað er vandamálið frá sjónarhóli ríkisins?

Sjaldan veldur einn þá tveir deila.  Þegar kjarasamningur er gerður er hann sameiginlegt verkefni beggja samningsaðila.  Hvorugur samningsaðilinn getur farið með hvaða samning sem er í sitt bakland.  Báðir verða því að leita að lausn sem sker báða úr snörunni.  Hvorugur fær allt sem hann vill.

Hvað ríkið snertir er ekki mikil pressa til að semja fyrr en kemur að stóra verkfallinu seinna í mánuðinum.  Því geri ég ekki ráð fyrir að lokaspilunum verði spilað út fyrr en þá nema þá hugsanlega að slíkt geti lokað samningunum.  Þangað til spái ég því að staðan muni hanga eins og hún hefur gert undanfarna daga og vikur.

Ég er auðvitað ekki í samninganefnd ríkisins og því eru eftirfarandi vangavelltur einungis það sem ég held að sé að gerast í þeirra herbúðum. Ég efast hins vegar um að ég hafi mjög rangt fyrir mér.  Allir vita hvað er að gerast hjá Ljósmæðrum þar sem þeirra hlið er í öllum fjölmiðlum.

Vandamálið er að það eru fullt af öðrum hópum með "út í hött" laun og endalaust hægt að deila um það hver er mest út í hött, aðeins meira út í hött eða aðeins minna út í hött.  Dæmi um það eru t.d. láglaunastéttir í umönnunarstörfum sem hafa vissulega ekki þá menntun sem ljósmæður hafa en launin þeirra eru engu að síður fáránleg.  Það sama má t.d. segja um almenna verkamenn sem eru með langt innan við 200 þúsund í dagvinnulaun, lögreglumenn, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, kennara og fleiri hópa sem hafa verið áberandi í umræðunni.  Grunnskólakennarar, með Ólaf Loftsson í broddi fylkingar, sömdu skynsamlega við sveitarfélögin núna á síðasta ári sem virðist lítið hafa flætt yfir í aðra kjarasamninga en þar var um að ræða mikla leiðréttingu á þeirra kjörum þótt auðvitað megi alltaf gera betur.

Í dag tel ég, horfandi ég þetta utanfrá, er staðan þessi frá sjónarhóli ríkisins:

  1. 15% verðbólga sem veldur því að launahækkanir hópa eru ekki endilega ávísun á aukinn kaupmátt.  Kaupmáttur er markmiðið - ekki talan á launaseðlinum.
  2. Flestir BHM hópar sömdu á árinu um 20 þúsund króna hækkun til 31. mars 2009 sem er líklega 5-8% launahækkun fyrir flesta þessa hópa.  Samningar allra þessara félaga eru því lausir á fyrri hluta árs 2009, þ.e. innan 6-9 mánaða.
  3. Forsendur kjarasamninga sem ASÍ og Samtök atvinnulífsins gerðu í febrúar 2008 eru brostnar.  Það þýðir að 1. mars næstkomandi þarf að semja aftur og heyrist mér ASÍ og SA vera lögð af stað í nýja þjóðarsátt til að reyna að slá á verðbólguna og tryggja kaupmátt.  Þegar samningarnir við BHM og fleiri renna út 31. mars verður örugglega reynt að koma þeim inn í sama mót og samninga SA og ASÍ, þ.e. svipaða hækkun og almenni markaðurinn og samningstími út árið 2010 eða þar um bil.

Þegar einn hópur óskar eftir 25% hækkun í þessu umhverfi er úr vöndu að ráða.  Það er ekki hægt að segja bara já og amen því það mun hafa bein áhrif á kröfur annarra hópa sem allir eru með lausa samninga á næstu mánuðum.  Slíkt mun síðan hafa áhrif á verðbólguna sem mun eyðileggja alla hækkunina og allir tapa.

Hvað er þá til ráða?

Ríkið er því milli steins og sleggju.  Það má ekki gera svona dýra samninga fyrr en hin félögin eru búin að semja árið 2009.  Það þarf því að spila einhvern millileik þangað til.  Dæmi um velheppnaða slíka aðgerð eru ofangreindir samningar Félags grunnskólakennara síðastliðið vor.  Þeir voru seinni hluti slíks millileiks.  Samningar virka þannig að hvorugur aðilinn fær allt sem hann vill.  Því ættu ljósmæður að samþykkja einhvern millileik í krónum talið en leggja frekar áherslu á hvað gerist næstu 1-2 árin og skera ríkið þannig úr snörunni því það getur ekki hreyft sig með öll hin félögin í startholunum næstu mánuði.

Ljósmæður gætu t.d. sætt sig við lægri hækkun en 25%.  Slík hækkun helst þyrfti að koma þeim upp fyrir hjúkrunarfræðing með BS próf.  Síðan yrði farið í einhverja svipaða vinnu og Félag grunnskólakennara fór í með sínum viðsemjanda þar sem hreinsað var til í ýmsu sem þeim þótti ástæða til.  Samningur myndi gilda þangað til eftir að aðrir samningar hópa við ríkið renna út, í síðasta lagi út árið 2009 með einhverjum frekari hækkunum á því ári.  Markmiðið væri að komast aftan við hina hópana sem eru með opna samninga árið 2009 og vera síðastar í röðinni.  Þá væri hægt að semja við þær aftur í janúar 2010 einhverja svipaða leiðréttingarsamninga og FG gerði því þá væri heilt ár í næstu samninga annarra hópa (SA og ASÍ sömdu út árið 2010 og mér finnst líklegt að samningar ríkisins sem gerðir verða árið 2009 verða a.m.k. til þess tíma).

Þetta gæti gert það að verkum að laun ljósmæðra leiðréttist töluvert á næstu 2 árum.  Í raunveruleikanum taka svona hlutir einfaldlega þann tíma og þá sérstaklega við aðstæður eins og nú þegar allir samningar eru lausir á næstu mánuðum og því mjög erfitt að gera samninga við einstök félög á öðrum grunni en fyrir heildina.

Menntun ljósmæðra

Töluverð umræða hefur verið um það í bloggheimum hvort menntun ljósmæðra sé of mikil, þ.e. hvort þær séu "overqualified" til starfans og það hvort full mikil "verðbólga" hafi hlaupið í menntunarkröfurnar undanfarin ár.

Ég er algerlega ósammála því.  Ég eignaðist barn á síðasta ári og fannst aðdáunarvert hvað allt ferlið í kringum meðgönguna, fæðinguna, sængurleguna og eftirfylgni eftir fæðingu er vel úr garði gert og faglegt.  Þetta ferli allt er leitt af ljósmæðrum víðs vegar í kerfinu sem komu mér fyrir sjónir sem afar faglegur hópur og mjög á tánum fyrir því sem var að gerast í þeirra fræðigrein. 

Fæðingin sjálf er afar tæknilega flókin aðgerð þar sem mjög margt getur farið öðruvísi en áætlað er.  Tölurnar sýna að tíðni ungbarnadauða á Íslandi er ein sú allra lægsta í heiminum, ef ekki sú lægsta.  Við fæðinguna eru bæði móðirin og barnið í beinni lífshættu enda hafa milljónir kvenna og barna látist við þessar aðstæður.  Þarna er ekkert hægt að fresta málinu og koma aftur í næstu viku.  Því þarf að taka ákvarðanir fljótt og fumlaust en einnig að tryggja að aðdragandi fæðingarinnar sé eins góður og hægt er til að tryggja að móðir og barn séu í besta mögulega formi fyrir stóra verkefnið.  Þetta fannst mér ljósmæðurnar leysa aðdáunarlega vel úr hendi.  Við áttum samskipti við fjölda ljósmæðra og allar voru þær afar færar í mannlegum samskiptum (sem læknisfræðilega skiptir mjög miklu máli við þessar aðstæður) auk þess sem svör þeirra voru mjög fagleg sem skapaði mikla öryggistilfinningu hjá okkur foreldrunum.  Slík öryggistilfinning veldur hugarró sem aftur dregur úr líkum á að fæðingin fari illa.

Starf ljósmæðra kallar klárlega á menntunarstig á meistarastigi og því hlýtur að vera markmiðið að þeim séu greidd samkeppnishæf laun m.t.t. menntunar.  Ég er vaxinn upp úr því að nota orðið "sanngjörn" um laun því það er einfaldlega of tilfinningaþrungið til að virka sem lýsingarorð.  Samkeppnishæf laun eru laun sem tryggja að ljósmæðrastarfið sé samkeppnishæft í launum og takist að halda í hæft fólk.  Sú staða er markmiðið.

Uppsagnir - Lögsókn

Það hvort uppsagnir ljósmæðra hafi verið löglegar eða ekki hefur ekkert með réttmæti krafna þeirra að gera heldur er algerlega aðskilið lögfræðilegt mál.  Það getur hins vegar gert það að verkum að uppsagnirnar verða dæmdar ólöglegar (fjármálaráðuneytið telur sig hafa undir höndum gögn sem segja að svo sé) sem ég held að þýði að þær þurfi segja upp aftur sem gefur ríkinu gálgafrest.  Kannski það sé skammtímamarkmið Árna og félaga með lögsókninni.  Að tryggja starfsemi tengda fæðingum sem kemur þó að litlum notum ef ljósmæðurnar verða allar farnar í verkfall.


mbl.is Árangurslaus sáttafundur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband