Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Trú upplýstrar þjóðar á 21. öldinni

Egill Helgason skrifar á bloggi sínu á Eyjunni: 

Hví er það í umræðum síðustu daga um kristni í skólum að maður heyrir fólk aðeins verja kristnina á þeim forsendum að hún sé góð til síns brúks - að kristið siðferði hafi dugað okkur vel?

En sama og enginn heldur því fram að við eigum að halda kristninni á lofti vegna þess að hún sé sannleikurin.

Er það kannski vegna þess að kirkjan sjálf trúir því ekki lengur?

Þetta snýst orðið meira um almennt velsæmi en bókstaf trúarinnar. Sem er kannski gætt.

En óneitanlega nokkurt undanhald.

 

Mér fannst ástæða til að svara þessu bloggi með hliðsjón af umræðum undanfarinna vikna og birti svar mitt hér þar sem mér finnst það eiga erindi við lesendur bloggsins:

Sæll Egill,

Þetta er ekki undanhald. Þetta er miklu frekar eðlileg og jákvæð framþróun trúar í hinum upplýsta heimi.

Upplýst fólk trúir ekki í blindni. Þá er það ekki upplýst. Venjulegt fólk, sem fer öðru hvoru í kirkju og biður bænir með börnunum sínum til þess að fá einn góðan vin að ofan með sér í hópinn til að gæta þeirra á lífsleiðinni, lítur á meginreglur kristinnar trúar sem sameiginlegt stef gildismats. Gildismat fyrirgefningar, kærleiks og þess að allir eigi að vera jafnir fyrir Guði og öðrum og hafi jafnan rétt á að vera til og njóta lífsins. Komdu fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig.

Það er frekar til að styrkja þetta kristna gildismat í sessi en hitt að svo vill til að nokkurn veginn sama gildismat er við lýði í öðrum trúarbrögðum hvort sem þar er um að ræða islam, hindúisma og víðar. Oftast eru þetta almennar tímalausar meginreglur um mannleg samskipti. Til dæmis er til kærleiksboðorð í öllum helstu trúarbrögðum heims.

Mér finnst líka mjög leiðinleg í umræðunni þessi röksemdarfærsla um að fyrst minnst sé á kristni sérstaklega t.d. í stjórnarskránni og grunnskólalögum þá þýði það að hún sé betri en önnur trúarbrögð og að það sé þ.a.l. eðlilegt að draga þá ályktun að þau séu öll verri en kristnin. Þetta er eins og að draga þá ályktun ef mér þykir Silfur Egils góður þáttur þá hljóti mér að þykja hann betri en allir hinir og helst að mér hljóti að finnast allir aðrir þættir slæmir. Þetta er einhvers konar “fótboltavæðing” trúarbragðanna þar sem annar verður að vinna. Að mörg trúarbrögð geti ekki unnið leikinn í sameiningu og skipt sér á milli hjarta ólíkra einstaklinga. Trúin á að vera hafin yfir þetta karp. Kristni hefur einfaldlega fylgt þjóðinni í þúsund ár og gefið tóninn hvað snertir sameiginlegt gildismat þjóðarinnar. Það segir ekkert að önnur trúarbrögð séu slæm, þau hafa bara ekki fylgt þjóðinni okkar í 1000 ár. Þau hafa fyllt einhverjum öðrum og örugglega gefist vel. Þau eru ekki þetta sameiginlega gildismatsstef sem er eitt af því sem gerir þjóðina að skilgreindum hópi.

Tiltölulega lítill hópur stýrir umræðunni oftast inn í einhvers konar karp. Þessi hópur er á kafi í trúmálum, n.k. “religious enthusiasts” og er lítill en hávær, bæði á Íslandi og í Pakistan. Ég vil kannski ekki kalla þetta allt öfgahópa en þessir hópar hengja sig oftast verulega mun meira í “textann” en venjulegt fólk. Þetta er fólkið sem talar um “sannleikann” og að allt verði að lesast orðrétt upp úr Biblíunni. Ef þessi hópur spyrði sig hvað trúarbrögð eiga sameiginlegt í stað þess að spyrja alltaf hver sé munurinn á milli trúarbragðanna þá myndi það styðja frekar við okkar kristilega siðgæði en hitt.

Gildismat þjóðarinnar á uppruna sinn í kristni og hefur átt í 1000 ár. Um þann uppruna deila fáir. Það er því eðlilegt að vísa þangað og að lykilstofnanir samfélags okkar byggi á þessum grunni og það gerir ekki á nokkurn hátt lítið úr öðrum trúarbrögðum eða fólki sem aðhyllist þau.

Gleðileg jól!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband