30.3.2007 | 19:39
Enginn her öflugasta hernaðartaktík 21. aldarinnar?
Ég hef ágætt álit á Birni sem stjórnmálamanni og hef oft kosið hann. Hann er vinnusamur og með sterkar skoðanir sem maður er einfaldlega annað hvort sammála eða ósammála. Ég er ósammála þessari.
Ég tel að íslenskur her (þetta er ekkert annað) sé ekki góð hugmynd. Hann talaði um að við gætum þá kallað út þúsund manna lið á launum. Þetta á að kosta 200 milljónir í upphafskostnað og rúmar 200 milljónir á ári eftir það. Það mætti gera margt þarft fyrir þann pening, t.d. að efla björgunarsveitirnar. Þær eru alltaf til taks en auðvitað óvopnaðar. Síðan höfum við lögregluna sjálfa sem er einnig óvopnuð og loks sérsveitina sem er vopnuð.
Ég var fylgjandi því að efla sérsveitina á sínum tíma til að taka á alls kyns vitleysingum sem eru í umferð og til að tryggja að almenna lögreglan verði ekki búin vopnum. Daginn sem það gerist mun margt breytast á Íslandi og ég er tilbúinn að leggja mikið á mig, þar með talið hæfilegt óöryggi til að til þess þurfi ekki að koma.
Ég er hins vegar algerlega á þeirri skoðun að það að við séum herlaust land veiti okkur tækifæri í alþjóðastjórnmálum til að taka frumkvæði t.d. í samningaviðræðum og friðarumleitunum sem við ættum frekar að beina athyglinni að heldur en að setja upp smáher. Ég held það sé spurning um grundvallarhugsun, þ.e. hvert við viljum stefna sem samfélag.
Nú hafa Bandaríkjamenn eytt milljörðum dollara í "stríðið gegn hryðjuverkum" og niðurstaðan er sú að heimsbyggðin hatar þá meira en nokkurn tímann áður og landið er í mun meiri hættu í dag en það var fyrir 11. september 2001. Það er hatrið sem skapar hættuna. Í dag eru "hermenn" ekki fulltrúar tiltekins ríkis heldur einstaklingar og smáhópar sem mjög erfitt er að henda reiður á.
Við munum aldrei geta komið í veg fyrir að maður sprengi sig á Lækjartorgi ef hann á annað borð vill það. Vörnin í stríði 21. aldarinnar snýst um að koma í veg fyrir að hann vilji það. Það er mun flóknara stríð sem hernaðarsérfræðingum 20. aldarinnar er að ganga mjög illa að eiga við. Kannski er besta vörnin fólgin í því að að rækta sambönd okkar við önnur lönd og önnur trúarbrögð annars vegar og því að það sé yfirlýst stefna okkar að hafa engan her. Kannski er það öflugasta hernaðartaktík 21. aldarinnar.
Áhersla á heimavarnir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Mér finnst töluvert kæruleysi koma fram í þessum athugasemdum. Þessar tölur eru mjög lágar út frá sjónarmiðum herfræðinnar en mjög háar þegar við skoðum þær út frá sjónarhorni félagsfræði, heilsugæslu og menntamála. Finnst þér rættlætanlegt að skera niður þjónustu samfélagsins til að stofna her á Íslandi? Mér finnst engar siðferðisleg rök sem mæla með því.
Hvet þig eindregið að skoða betur þessi mál og þú munt ábyggilega komast að skelfilegri niðurstöðu þegar þú kynnir þér betur upplýsingar sem tengjast ofbeldi, vopnasölu og þess háttar hryllilegum hlutum.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 2.5.2007 kl. 12:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.