Áfengi í matvöruverslunum??? Að markaðssetja og af-markaðssetja

Mér finnst athyglisverð umræðan um sölu áfengis í matvöruverslunum.  Ég er sannfærður um að það eykur neyslu áfengis þrátt fyrir að mér sjálfum þætti það mjög þægilegt.  Ég er því á þeirri skoðun að það eigi EKKI að leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum þar sem þá séum við að fórna stærra máli fyrir minna.  Ég tel að selja eigi áfengi í aðgreindum verslunum þannig að maður þurfi að "gera sér ferð" til að kaupa áfengi en geti ekki keypt það "í leiðinni".
Ég kaupi t.d. gos "í leiðinni".  Ég er algerlega sannfærður um að ég myndi drekka mun minna gos ef ég gengi ekki fram hjá því í búðinni.  Hver er munurinn á gosi og áfengi.  Gos er stórhættulegt, segja allar kannanir.  Pólitík gengur út á að ákveða hvar eigi að draga línuna þar sem heimurinn er ekki svartur og hvítur heldur misjafnlega grár.  Við leyfum gos alls staðar, höldum áfengi á hliðarlínunni en bönnum sterkari fíkniefni.  Þannig aukast höftin í réttu hlutfalli við væntan skaða.
Á ríkið að standa í búðarekstri
Hins vegar sé ég enga ástæðu til að ríkið reki verslanir, hvorki í ÁTVR né í flugstöð Leifs Eiríkssonar.  Mín skoðun er sú að leyfa eigi hverjum sem er að reka áfengisverslun en að það þurfi að vera í aðskildum verslunum, þ.e. ekki t.d. í matvöruverslunum.  Hver eru rök mín fyrir því?
Að markaðssetja og af-markaðssetja vöru
Þegar vara er markaðssett er reynt að hafa áhrif á söluráðana fjóra;
Verð - Vara - Kynning - Dreifing.

Verð: Það er reynt að hafa verðið ekki of dýrt fyrir markhópinn
Vara: Vöruna góða og í mörgum útfærslum
Kynning: Gera vöruna eftirsóknarverða með kynningu
Dreifing: Gera hana aðgengilega sem allra víðast með góðri dreifingu.

Þegar maður "af-markaðssetur" vöru hlýtur maður að fara öfugt að og það hefur verið gert í tilfelli áfengisins.
Verð: Verðið er dýrt
Vara: Tiltölulegar fáar og einsleitar vörur fást, þ.e. úrvalið er frekar takmarkað
Kynning: Auglýsingar eru bannaðar
Dreifing: Maður þarf alltaf að gera sér sérstaka ferð til að sækja það.

Niðurstaðan: Neysla Íslendinga á áfengi pr. mann hefur í gegnum tíðina verið minni en þeirra þjóða sem við almennt berum okkur saman við. Aðgerðirnar hafa því verið að virka.

Það kemur engum á óvart að innflytjendur á áfengi vilji leyfa auglýsingar, leyfa hverjum sem er að selja hvað sem er, lækka verðið og selja áfengi í matvöruverslunum. Þá er búið að hafa áhrif á alla fjóra söluráðana sem hlýtur að leiða til aukinnar neyslu á áfengi eins og á öllum öðrum vörum.
Bendi á athyglisverða skýrslu á vef Lýðheilsustöðvar: Áfengi - Engin venjuleg neysluvara

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Sæll Sigurður. Þetta er spurning um hvað við viljum hafa mikið vit fyrir fólki. Það er hægt að reka þjóðfélagið eins og svínabú, þ.e. setja lög og reglur í þeim tilgangi að ná einhverjum tölulegum markmiðum svo sem minni drykkju, færri bílslysum, hærri meðalaldri o.s.frv.  Það má samt ekki gleyma því að við viljum vera frjáls og hafa það gott án þess að það sé alltaf einhver stóri bróðir að vaka yfir okkur. Í gamla daga var bjór bannaður með sömu rökum, nú vill enginn hætta að selja hann. Ekki einu sinni þeir sem vildu ekki leyfa hann.

Þorsteinn Sverrisson, 7.5.2007 kl. 21:49

2 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Rétt Þorsteinn, þetta snýst um það hvar við viljum draga línuna og hvenær tilgangurinn helgar meðalið.  Pólitík snýst um að ákveða HVAR á að draga línuna.

Ég er sammála því að það þurfi ríkar ástæður til að draga úr frelsi fólks til kaupa á tilteknum neysluvörum.  Ég er hins vegar á því að þær ástæður séu til staðar þar sem þau áhrif sem áfengisneysla hefur á samfélagið er mjög veruleg.  Þar gildir hins vegar auðvitað 80/20 reglan, 20% af neytendum neyta 80% magnsins.  Við erum því alltaf að þrengja að fjöldanum til að draga úr skaðanum sem tiltölulega lítill minnihluti veldur.

Munurinn á því að bæta aðgengi að áfengi annars vegar og því að dreifa bjór er verulegur.  Með því að bæta aðgengið ertu að hafa áhrif á söluráðana sem hlýtur að auka neyslu á þessari vöru eins og öðrum.  Með því að bjóða upp á 5% áfengi sem valkost við 40% áfengið sem er á markaðnum er verið að bjóða upp á VÆGARI vöru og flytji hluti markaðarins neysluna þangað DREGUR ÞAÐ ÚR neyslunni en eykur hana ekki.  Það er því mikill munur á þessu tvennu.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 8.5.2007 kl. 00:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband