28.5.2007 | 17:28
Fæðingarorlof - Erum við að fara aftur til baka???
Var að hlusta á hádegisviðtalið á Visir.is við Jóhönnu Sigurðardóttir. Þar ræddi hún meðal annars um breytingar á fæðingarorlofslögum.
Þar sagði hún að ef feðurnir taka ekki orlofið sitt í dag þá fá einstæðar mæður eingöngu sex mánuði eins og aðrar mæður. Barnið fær því aðeins að njóta samvista við foreldra sína í sex mánuði en ekki níu eins og það fengi ef faðirinn tekur orlofið líka.
Hennar lausn væri að hún vildi lengja fæðingarorlof einstæðra mæðra EF feðurnir tækju ekki sitt orlof. Hennar lausn er að hinar einstæðu mæður fái níu mánuði í orlof taki feðurnir ekki sitt orlof. Þetta þýðir auðvitað aðeins eitt í raun: Í mörgum tilfellum (auðvitað ekki öllum) munu hinar einstæðu mæður í raun líta það hornauga ef feðurnir taka sitt fæðingarorlof þar sem það hefur neikvæð áhrif á þeirra eigin rétt. Í sumum tilfellum munu þær jafnvel banna þeim að taka orlofið sitt.
Tilgangurinn er auðvitað góður en þetta er stórhættulegt og mun slá illa til baka þá þróun sem átt hefur sér stað varðandi fæðingarorlofstöku feðra. Þvert á móti þarf að breyta lögunum þannig að báðir foreldrar hafi jafnan rétt til töku fæðingarorlofs. Í dag er þetta þannig að faðirinn hefur þrjá mánuði, móðirin þrjá mánuði og síðan geta foreldrarnir skipt á milli sín þremur mánuðum. Yfirgnæfandi fjöldi mæðra tekur þessa auka þrjá mánuði. Mjög lítið er um að feður nýti sér þá.
Það sem þarf að gerast er að það þarf að lengja fæðingarorlofið úr 9 mánuðum í 12 þannig að mæður hafi sex mánuði og feður sex mánuði og að það sé ekki hægt að flytja það neitt á milli. Þá munum við sjá mikinn fjölda feðra taka sér sex mánaða fæðingarorlof sem er nokkuð sem við höfum ekki séð áður. Einnig mun þetta hafa áhrif á launamun kynjanna ef sá tími sem karlar taka í fæðingarorlof þróast í að vera svipaður og kvenna.
Markmið fæðingarorlofslaganna er að barnið fái tækifæri til samvista við BÁÐA foreldra sína. Einhverjir feður vilja ekki taka sitt orlof. Þeim mun fara fækkandi frekar en hitt. Gætum þess að láta þá ekki stjórna því hvernig lögin þróast heldur þá feður sem taka sitt orlof og vilja helst fá lengra orlof. Það er sá hópur sem við viljum styðja.
Það má færa sterk rök fyrir því að fæðingarorlofið skipti feðurna jafnvel meira máli en mæðurnar vegna þess að staðreyndin hefur verið sú að mæðurnar umgangast börn sín meira en feðurnir sem forgangsraða vinnunni oft hærra en mæðurnar á kostnað fjölskyldunnar. Fæðingarorlofið er einstakt tækifæri til að hafa áhrif á þessa þróun því þar fá feðurnir tækifæri sem þeir hafa jafnvel aldrei áður gefið sér til að vera með börnunum sínum og upplifa það sem raunverulegan möguleika og raunveruleg gæði.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
sko, ég er sammála þér í þessu. Hins vegar má ekki gleyma þeim börnum sem eru algerlega afskipt af feðrum sínum, þau eru jú til! Það eru þau sem Jóhanna er að tala um myndi ég halda.
Annars finnst mér mega taka mikið betur til í þessu fæðingarorlofskerfi heldur en bara að lengja réttinn. Það að vera að eignast tvíbura eftir að hafa bæði verið í námi og vinnu síðustu 2 ár er mun flóknara en margur getur ýmindað sér!!
Helga Rós (IP-tala skráð) 4.6.2007 kl. 20:30
Rétt er það Helga Rós en það verður þá að vera heimild til að félagsmálayfirvöld veiti þessum mæðrum sértæka viðbótarlausn þar sem svo er statt.
Ég ítreka þó að það er mjög mikilvægt að það dragi ekki úr möguleikum feðranna að taka sitt orlof því um leið og orlof feðranna fer að draga úr möguleikum mæðranna á að taka sitt orlof þá munu þeir í mörgum tilfellum detta út. Þetta er mjög viðkvæm staða sem við erum í núna og við þurfum að gæta okkar að skaða ekki þá frábæru þróun sem er í gangi.
Sigurður Viktor Úlfarsson, 5.6.2007 kl. 18:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.