14.6.2007 | 22:13
Bý við Miklubraut...
Ég bý við Miklubraut og keyri því tvisvar til sex sinnum eða jafnvel oftar á dag um gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Eftir að beygjuljósin komu finnst mér þau ekki vera neitt mál og ég þarf varla nokkurn tímann að bíða nema einn ljósaumgang í mesta lagi. Hins vegar lendi ég stundum í teppu við gatnamót Miklubrautar og Lönguhlíðar á háannatímanum.
1) Það er mín skoðun að Miklubrautin eigi að fara í stokk frá Grensásvegi að Rauðarárstíg og jafnvel alla leið að Hljómskálagarði. Við það myndi losna gríðarlegt byggingarland ofan á henni sem mjög gróft reiknað (www.borgarvefsja.is) væri eitthvað um 120.000 fermetrar frá Grensásvegi að Snorrabraut og auðvitað meira ef hún færi lengra í vestur.
Tryggja þyrfti mjög góða loftræstingu því þetta myndi þýða að Reykvíkingar eyddu verulegum tíma á degi hverjum ofan í göngum sem gæti haft varanlegar heilsufarslegar afleiðingar t.d. á kyrrum frostdögum.
Einnig þyrfti að tryggja að þau væru björt svo fólk upplifði sig ekki niðri í myrkrinu stóran hluta úr deginum.
2) Mér finnst hugmyndirnar um Öskjuhlíðagöng mjög góðar því þær myndu tappa verulega af flæðinu úr miðbænum (af Snorrabraut og Miklubraut) og inn á Kringlumýrarbrautina í úthverfin suður af borginni.
3) Tappinn sem myndast á Miklubrautinni er við gatnamót Miklubrautar og Lönguhlíðar. Ég bý þar á horninu og milli klukkan hálf fimm og hálf sex er ég álíka lengi ofan úr Árbæ og að Kringlumýrarbraut og ég er frá Kringlumýrarbraut niður að Lönguhlíð, upp í 6 mínútur hvorn legg. Á öðrum tímum er þetta í lagi.
4) Mislæg gatnamót á mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar væru mistök. Undantekningin væri ef þau væru mislæg niður á við en ekki upp á við, þ.e. niður í stokkinn og Kringlumýrarbrautin lægi yfir Miklubrautina.
5) Önnur lausn og líklega sú besta væri að leggja þessa 12 milljarða í endurbætur á strætisvagnakerfinu. Með því að setja þennan pening í kerfið væri hægt að gera kraftaverk á þessu sviði. Auka tíðnina í 10 mínútur á öllum leiðum, þétta netið, hafa frítt í strætó og hita upp strætóskýlin. Þá væri strætó orðin raunhæfur valkostur sem myndi leysa stóran hluta af þessum umferðarvandamálum á 5-10 árum. Því mun fleiri fjölskyldur myndu ákveða að kaupa ekki bíl nr. 2 á heimilið heldur eiga aðeins einn bíl. Þær gætu þá ferðast og gert skemmtilega hluti fyrir 700.000 kr. sem kostar að reka bílinn á ári. Með þessu drægi verulega úr bílaeign borgarbúa og þar með úr öngþveitinu.
Hugsum stórt og hugsum langt fram í tímann. Við erum á tímamótum og þurfum að ákveða okkur í hvernig borg við viljum búa eftir 20 ár.
Öskjuhlíðagöng í stað mislægra gatnamóta? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég tek heilshugar undir þessar tillögur þínar, ekki síst nr. 5. Hafa strætó á 10 mínútna fresti og almennileg skýli sem standa undir nafni. Strætó Á að vera til staðar og hann MÁ kosta samfélagið peninga. Ég botna ekkert í þessari endalausu "arðsemismeinloku" í stjórnmálamönnum. Almenningssamgöngur eru grunnfúndament í öllum stærri borgarsamfélögum, því ekki hér ? Ég segi að það sé röngum hugsunarhætti að kenna, lélegum vinnubrögðum stjórnmálamanna. Það þarf að minna stjórnmálamenn á að þeir eru ekki að selja verðbréf eða reka banka. Þeir eru ráðnir af OKKUR til að ráðstafa sameiginlegum sjóði skattgreiðenda, peningum sem þegar eru fyrir hendi, peningum sem EIGA að renna til grunnstoða samfélagsins, þannig að þær virki. Strætó er ein af þessum grunnstoðum í samfélaginu, jafnmikilvægur eins og skólarnir og heilbrigðiskerfið. Persónulega finnst mér hinsvegar ekki að það þurfi að vera frítt í strætó en það þarf að vera auðvelt að borga - t.d. að kosti sléttan hundraðkall eða þá gefið til baka.
Lana Kolbrún Eddudóttir (IP-tala skráð) 14.6.2007 kl. 22:47
Það á að vera frítt í strætó. Ekki vegna þess að við förum öll á hausinn við að nota hann heldur til þess að auka notkunina.
Einu sinni var ég með græna kortið í nokkra mánuði. Það sem ég tók eftir var að ég fór að nota strætó allt öðruvísi en ég hafði notað hann áður en ég fékk kortið. Ég notaði strætó til að fara mikið styttri leiðir en áður. Bara aðeins til að flýta fyrir mér með því að skutla mér áfram um eina eða tvær stöðvar, eitthvað sem ég hefði aldrei gert ef ég hefði greitt pr. ferð. Allt snýst þetta um að kenna Íslendingum að nota strætó. Með því erum við að spara ótrúlega fjárhæðir í umferðarmannvirkjum, slysum, minnkandi innflutningshalla vegna minni innflutnings á bílum, minnkandi sliti á götum, minni mengun og ennþá minni mengun ef við flytjum alla strætisvagnana yfir á metan eða vetni.
Mæli líka með því að við fáum Orkuveituna til að taka Strætó yfir. Hún er góð í því að veita hlutum til og frá um höfuðborgarsvæðið á umhverfisvænan máta. Skiptir þar ekki öllu máli hvort hún veitir köldu eða heitu vatni, rafmagni, frárennsli, gögnum eða FÓLKI (í tilfelli Strætó). Þá yrði þetta gert almennilega en ekki með þessu hálfkáki sem verið hefur í gangi undanfarna áratugi.
Sigurður Viktor Úlfarsson, 14.6.2007 kl. 23:39
Ef menn vilja halda því opnu að geta rukkað fyrir þetta geta þeir kallað þetta tilraunaverkefni til 20 ára.
Sigurður Viktor Úlfarsson, 14.6.2007 kl. 23:40
góðar hugmyndir ! Verst að fólk eins og þú og ég hefur engin áhrif..
Óskar Þorkelsson, 15.6.2007 kl. 00:24
Góður pistill!
Dofri Hermannsson, 15.6.2007 kl. 09:05
Góður pistill! Ég er ótrúlega sammála þér, það er alveg magnað að ekki skuli lagt meira uppúr almenningssamgöngum en raun ber vitni.
Sigrún Ósk Arnardóttir, 15.6.2007 kl. 09:48
Heyr, heyr!
Best líst mér samt á 5. tillöguna, þessa um strætó. Keypti mér rauða kortið þegar ég seldi bílinn minn fyrir þremur mánuðum eða svo. Jú, það er mjög gott að hafa kortið og geta bara stokkið upp í næsta strætó, það er að segja ef strætó er ekki bara ný farinn og ég þarf að bíða í heilan hálftíma eftir næsta... Hef staðið sjálfa mig að því að labba langar vegalengdir frekar en að hanga og bíða eftir strætó, enda er það ekki alveg mín sterkasta hlið að bíða eftir einhverju. Sem er svo aftur ein af ástæðunum fyrir því að ég seldi bílinn minn, en ég var komin með nóg af að bíða í umferðarhnútum á götum borgarinnar. Þá finnst mér nú betra að nota tvo jafnfljóta, hjóla eða að leggja mig í strætó... ;)
Sjötta leiðin gæti svo verið að gera hjólreiðafólki auðveldara með að komast á milli staða.
Sigrún (IP-tala skráð) 25.6.2007 kl. 00:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.