20.6.2007 | 00:16
Stéttarfélögin og konur þau einu sem geta tekið af skarið
Þetta er allt gott og blessað og auðvitað sjálfsagt mál að laun fólk ráðist ekki af kyni eða öðrum þáttum sem ættu ekki að koma málinu við.
Kynbundinn launamunur skiptist í tvennt:
1. Annars vegar þar sem sambærilegir starfsmenn í sambærilegum störfum fá mismunandi laun án þess að önnur ástæða en kyn sé til staðar.
2. Hins vegar þar sem starfshópar með konum í meirihluta hafa lægri laun (eða hærri) en starfshópar með körlum í meirihluta án þess að fyrir því liggi fagleg skýring.
Einstaklingsbundinn munur er tiltölulega auðvelt mál að leysa eða sætta sig við séu ástæður aðrar en kyn.
Eigi að raska innra jafnvægi milli hópa og raða hópum upp á nýtt innbyrðis þurfa stéttarfélögin að ná sátt um það SÍN Á MILLI hvernig þeim finnst eðlilegt að launamunurinn sé milli hópa. Það verður hins vegar erfið barátta innan verkalýðshreyfingarinnar.
Fyrr en annað hvort eða bæði; búið er að fá niðurstöðu í þá baráttu um uppröðun EÐA fyrr en konurnar í kvennastörfunum segja upp og FARA (framboðið af þeim minnkar) mun ekki verða raunveruleg breyting milli hópa. Fyrr mun munurinn milli kvennahópa og karlahópa ekki minnka.
Eru stéttarfélögin tilbúin að fara í þessar viðræður sín í milli?
Eru konur tilbúnar að segja upp störfum sínum séu þær óánægðar með launin sín?
Af hverju er þetta svona?
Einstaklingsbundinn launamunur: Ég hef komið svolítið nærri þessum málum og við höfum tekið svona hópa, raðað þeim upp í Excel og spurt okkur hvort eitthvað sé óeðlilegt við röðun viðkomandi karla og kvenna, þ.e. einstaklinganna. Stundum eru ástæður, sögulegar eða aðrar, stundum ekki og þá reynum við að gera eitthvað í því með viðkomandi einstaklinga.
Hópar: Þegar stéttarfélög koma til kjarasamninga þá koma þau með það markmið að ná sem bestum samningum fyrir SÍNA umbjóðendur algerlega burt séð frá því hvað verður um launafólk utan viðkomandi félags. Öll félögin vinna svoleiðis enda væntanlega þeirra verkefni sem fulltrúar sinna félagsmanna. Samkeppni er milli stéttarfélaga um að vera besta stéttarfélagið og geta sagt frá því sem þeir fengu framgengt en hinir ekki.
Það þýðir að hvert félag miðar sig við þann hóp sem hentar því best og veitir því besta samningsstöðu en ekki endilega sambærilegan hóp með sambærileg laun. Félagið segir t.d.: við höfum lengi verið 20% lægri en hópur A en núna erum við orðin 25% lægri. Við höfum því dregist aftur úr. Sé það leiðrétt er komið á jafnvægi frá þeirra sjónarhóli. Þá hefur hins vegar myndast ójafnvægi einhvers staðar annars staðar.
Þannig er allt fast innbyrðis milli félaga; öll félögin eru í röð, einstakir hópar háskólamanna efstir og ófaglærðir lægstir. Aðrir hópar raðast þarna á milli eftir ósýnilegu innbyrðis kerfi því allir miða sig við alla. Eigi að riðla þessu jafnvægi sem orðið hefur til milli hópa í gegnum tíðina þarf að hækka einhvern hóp umfram hina. Stundum er það hægt með þá sem eru allra lægstir. Vandamálið verður hins vegar meira eftir því sem ofar dregur í launastigann.
Kennari með 250 þús. kr. í laun nýtur lítillar samúðar verkmanns með 150 þús. kr. í laun. Verkamaðurinn sér ekkert réttlæti í því að kennarinn hækki meira en hann þótt kennarinn sé að miða sig við viðskiptafræðinga með 400-500 þús. kr. í laun. Báðir eru með Bachelor gráðu og því í raun sambærilega menntun og kennaranum finnst laun sín eðlilega óásættanleg í þessum samanburði. Þetta þýðir að séu laun eins hóps, t.d. kennara eða félagsfræðinga (sem eru að meirihluta konur) hækkuð meira en laun annarra þá koma hin stéttarfélögin og segjast vilja fá sömu hækkun. Verði það niðurstaðan hækka laun allra sem þýðir að verðlag hækkar sem þýðir að launahækkunin er horfin og sama jafnvægið komið á og áður.
Stéttarfélögin verða því að taka af skarið innbyrðis vilji þau í raun breyta launum þessara hópa umfram aðra. Um er að ræða ákveðið fjármagn sem dreift er í kjarasamningum. Ef einn hópur fær meira þá fær hinn minna. Ef röðinni verður dreift þá er það einmitt það sem gerist. Réttið upp hönd sem tekur að sér að fá minna til að þessir hópar fái meira?
Samþykkt í borgarstjórn að gera launakönnun meðal borgarstarfsmanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:26 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.