23.11.2007 | 21:43
Hafnaði ekki heldur vísaði til þjóðarinnar - Alvöru forseti
Ólafur hefur löngu sannað það að hann er alvöruforseti sem lætur ekki segja sér fyrir verkum enda skrifaði hann doktorsritgerðina sína í stjórnmálafræði um hlutverk forsetaembættisins í íslenskri stjórnskipan. Það vita því fáir Íslendingar, ef einhverjir, betur hvaða réttindi og skyldur forsetaembættið ber í íslenskri stjórnskipan.
Það er líka alrangt þegar sagt er að hann hafi HAFNAÐ fjölmiðlafrumvarpinu. Forseti getur ekki hafnað frumvarpi sem samþykkt hefur verið á Alþingi. Ef hann gæti það þá byggjum við í einræðisríki. Hann getur annað hvort staðfest frumvarpið eða vísað því til þjóðarinnar. Á þessu er grundvallarmunur.
Það eina sem er einkennilegt við það verk Ólafs að vísa þessum lögum til þjóðarinnar er sú staðreynd að það skuli aldrei fyrr eða síðar hafa gerst þau rúmlega 60 ár sem liðin eru frá stofnun lýðveldisins.
Í dag getur forsætisráðherra samið og lagt fram frumvarp, leitt umræðuna um það í þinginu og beitt áhrifum sínum til að fá það samþykkt. Loks eru það hann og oftast nær undirmaður hans í flokknum, forseti Alþingis, sem hafa meirihluta meðal handhafa forsetavalds og geta samþykkt frumvarpið þar sé forseti erlendis. Þetta er fullkomlega óeðlilegt og undirstrikar mikilvægi forsetaembættisins sem öryggisventils í stjórnsýslunni. Þá er afar mikilvægt að ráðherrar sitji ekki á þingi til að aðskilja löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið.
Forsetinn ætlaði einnig að hafna breyttum fjölmiðlalögum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég heyrði líka í einhverjum fréttatímanum sagt að hann hafi beitt neitunarvaldi. Það vald hefur hann hins vegar ekki eins og flestir aðrir en þessi fréttamaður vita.
Steini
Steini (IP-tala skráð) 24.11.2007 kl. 14:52
Vissulega skortir á að lýðræðið sé nægjanlega gott og best væri að aðskilja þingsetu og ráðherradóm. En kannski skortir meira lýðræðishugsun í þingmenn úr öllum flokkum og þjóðina. Að það þyki eðlilegt að meirihlutinn á hverjum tíma geti þvingað sitt fram án þess að hafa alvörusamráð við minnihlutann er hluti af fáránlegum vinnubrögðum. Lýðræði snýst ekki um að sá sterki valtri yfir þá veikari (þ.e. í fylgi).
Kannski of hart að tala um að ef Forsetinn gæti hafnað lögum að þá værum við í einræðisríki. Nema auðvitað að USA eigi að vera einræðisríki.
Daði Einarsson, 26.11.2007 kl. 17:09
Ef forseti Íslands gæti hafnað lögum frá alþingi einhliða þá væri það nú hálfgert einræði þar sem engir tveir aðilar takast á í forsetanum og því er ekkert mótvægi við hann. Í USA er einfaldlega annað kerfi. Þar er forsetinn yfir framkvæmdavaldinu og í raun ígildi forsætisráðherrans okkar. Hann þarf á þinginu að halda til að koma sínum málum í gegn og þingið þarf á honum að halda til að koma sínum málum í gegn. Þannig myndast lykillinn að lýðræðinu, 'checks and balances', að einn aðili (eins og forsætisráðherrann á Íslandi (sjá bloggið að ofan)) hafi ekki allt ferlið í hendi sér.
Núna er mótvægið við hið sterka íslenska framkvæmdavald í raun einungis í höndum forseta Íslands. Forsætisráðherra "ræður yfir" bæði framkvæmda- og löggjafarvaldinu og hefur meira að segja meirihluta í hópi handhafa forsetavalds. Það eina sem "tékkar hann af" er forsetinn og heimild hans til að vísa málinu til þjóðarinnar sem er auðvitað alltaf æðsta vald lýðveldisins.
Hvað snertir lýðræðishugsunina og meðferðina á minnihlutanum er ég auðvitað sammála þér, þó með þeim fyrirvara að meirihlutinn er auðvitað meirihlutinn og lýðræðið gengur út að meirihlutinn ráði enda hefur hann meirihluta þjóðarinnar á bakvið sig. Kosningar eru haldnar og meirihlutinn fundinn til þess að einhver beri ábyrgðina og haldi um stýrið. Minnihlutinn á í rauninni ekkert að geta troðið misgáfulegum málum í gegnum kerfið enda hefur hann ekki meirihluta þjóðarinnar á bakvið sig. Hins vegar er auðvitað mikilvægt að sá sem er að fást við verkefni og stjórnun almennt nýti þann mannauð sem hann hefur aðgang að til að ná bestu mögulegu niðurstöðu. Þannig ætti forsætisráðherra á hverjum tíma að sjá sér hag í því að nýta þann mannauð sem finnst í minnihlutanum og nýta frá þeim góðar hugmyndir. Ég held líka að það gerist nú oft t.d. á nefndarfundum og í sveitar- og borgarstjórnum. Hins vegar er það rétt að óeðlilega lítið hlutfall frumvarpa sem koma frá minnihlutanum fær náð fyrir augum meirihlutans og oft er erfitt að sjá málefnalega ástæðu þess.
Sigurður Viktor Úlfarsson, 26.11.2007 kl. 22:56
Ég veit nú ekki betur en að doktorsritgerð Ólafs Ragnars hafi heitið "Political power in Iceland : prior to the period of class politics 1845-1918". Samkvæmt þessu fjallar ritgerðin um pólitískt val hér á landi fyrir árið 1845. Nú hef ég ekki lesið ritgerðina, en hvernig tengist þetta "hlutverki forsetaembættisins í íslenskri stjórnskipan", embætti sem ekki var stofnað fyrr en árið 1944?
Hjörtur J. Guðmundsson, 2.1.2008 kl. 18:40
Rétt er það frændi, þarna tókstu mig í bólinu. Það er svona að kanna ekki nægilega vel heimildir. Takk fyrir þetta.
Sigurður Viktor Úlfarsson, 2.1.2008 kl. 19:21
Allt í góðu frændi. Ég ætlaði ekki að hanka þig á neinu. Ákvað einfaldlega að kynna mér þessa ritgerð pg fletti Ólafi upp á http://doktor.bok.hi.is og fann þá þetta.
Hjörtur J. Guðmundsson, 2.1.2008 kl. 19:57
Gerði það einmitt líka áðan á 5 mínútum...hefði nú átt að nota þær 5 mínútur í það fyrr.
Sigurður Viktor Úlfarsson, 2.1.2008 kl. 20:26
;)
Hjörtur J. Guðmundsson, 4.1.2008 kl. 00:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.