8.2.2008 | 17:14
Pólitískt vs. lagalegt umboð
Umboð borgarstjóra
Það leikur enginn vafi á því að borgarstjóri hefur lagalegt umboð til að fara með eigendabréf OR á hverjum tíma.
Það er hins vegar allt annað en pólitískt umboð. Það verður að teljast með ólíkindum miðað við þau hörðu neikvæðu viðbrögð sem Vilhjálmur fékk á fundinum 3. október frá sínum flokkssystkinum í borgarstjórn að hann skyldi hundsa það álit samstarfsfólks síns, böðlast áfram og greiða atkvæði á fundinum með alla brjálaða í kringum sig. Það hefur margsinnis komið fram að meðal Sjálfstæðismanna var allt brjálað á fundinum í Stöðvarstjórahúsinu á sínum tíma og Vilhjálmur lét það einfaldlega sem vind um eyru þjóta og fór sína leið. Það lék enginn vafi á því á þessum fundi að hann hafi ekki pólitískt umboð frá sínum samflokksmönnum.
Hann hefur einfaldlega ákveðið að stjórn OR réði þessu, skítt með álit borgarfulltrúanna, og hann hafði meirihluta stjórnar á bakvið sig, þ.e. Hauk Leósson, Björn Inga og sjálfan sig.
Nú eru bæði Haukur Leósson og Björn Ingi farnir og augljóst að farið er að styttast í að Villi fari sömu leið.
Umboð forstjóra OR
Það hefur verið ljóst allan tímann að þeir sem leiddu allt REI-dæmið voru stjórnarmenn meirihlutans í OR og forstjóri og aðrir starfsmenn fyrirtækisins fylgdu þeirra skipunum í störfum sínum. Forstjóri ber ekki ábyrgð gagnvart borgarstjórn eða borgarráði. Forstjóri ber ábyrgð gagnvart stjórn fyrirtækisins sem síðan ber ábyrgð gagnvart borgarstjóra sem ber ábyrgð gagnvart borgarráði og borgarstjórn.
Lærdómur
Ein hugmynd hefur komið inn í umræðuna út frá stjórnsýsluforsendum að það þurfi að gæta þess að sama fólkið sé ekki á mörgum stöðum í stjórnsýslukeðjunni.
Stjórnsýslukeðjan er borgarstjórn og borgarráð => Borgarstjóri => Stjórn OR.
Stjórn OR => Forstjóri (forstjóri er starfsmaður stjórnar)
Stjórn OR => Stjórn REI (eða annarra dótturfélaga)
Í dag er sama fólkið út um allt í þessari keðju. Meirihluti borgarráðs situr í stjórn OR og á að hafa eftirlit með störfum sjálfs sín. Nú er talað um að einn borgarfulltrúa og stjórnarmeðlima í stjórn OR taki við stjórnarformennsku REI. Það þýðir að Júlíus Vífill borgarfulltrúi á að hafa eftirlit og hugsanlega segja upp Júlíusi Vífli stjórnarmanni í OR sem aftur á að gera það sama við Júlíus Vífil stjórnarmann í REI. Nú tek ég Júlíus einungis sem dæmi þar sem sambærilegir árekstrar eru alls staðar í gangi í kerfinu.
Hefði Villi greitt atkvæði á fundinum með sama hætti ef hann (borgarstjórinn) hefði ekki líka verið í stjórn OR? Þar var í raun einn stjórnarmanna kominn með einvaldsrétt til ákvarðanna í stað þess að Villi kæmi að málinu sem fulltrúi borgarstjórnar, þ.e. eigenda (s.b. eigendafundur).
Væri ekki eðlilegra út frá stjórnsýslulegum forsendum að borgarstjórn þyrfti að skipa einhvern utan sinna raða í stjórn OR og annarra sambærilegra fyrirtækja? Það kæmi í veg fyrir hagsmunaárekstra þegar borgarráð á að fara að gagnrýna störf stjórnar OR sem, að miklu leyti, er skipuð sama fólkinu og situr í borgarráði. Dæmi um nýja stjórn OR gæti verið fráfarandi stjórn með Bryndísi Hlöðversdóttur í broddi fylkingar. Þar var öflug stjórn sem tók við á erfiðum tímum en skorti tilfinnanlega umboð til athafna í málefnum REI.
Svolítið merkilegt að þetta skyldi ekki koma fram í skýrslunni. Ætli það sé vegna þess að menn vilja halda í stólana?
Yfirlýsing frá Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:16 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.