16.9.2008 | 22:38
Evrumál - Að éta kökuna og eiga hana samt
Það er vissulega ákveðið aukaflækjustig að vera með sjálfstæða mynt og kemur að einhverju leyti í veg fyrir samkeppni, t.d. á bankamarkaði á Íslandi (þótt íbúafjöldinn hafi nú líklega töluvert með það að gera líka).
Þó er grasið ekki alveg grænt hinum megin heldur, samanber þá aðstöðu sem Spánn og Írland eru í um þessar mundir. Þessar þjóðir er að fara í gegnum töluverðan öldudal en geta ekki beitt myntinni fyrir sig í fallinu. Seðlabanki Evrópu segist ekki blanda sér í málið.
Nú eru stýrivextir og verðbólga svimandi há og grasið því grænna víðast hvar annars staðar. Ef við næðum þeim árangri að uppfylla þær efnahagskröfur sem landið þarf að uppfylla til að geta orðið aðili að Evrunni væri þá ekki stór hluti hvatans við upptöku Evru farinn?
Það er ljóst að lítill bátur veltur meira en stór. Náum við einhvern tímann þeim stöðugleika sem krafist er til að koma til greina sem Evruþjóð? Verðum við þá ekki að hætta að "gleypa fíla" eins og Tryggvi minntist á í Kastljósi í kvöld. Íslendingar eru í eðli sínu þjóð sem hefur "fílagleypingar" að áhugamáli. Þannig höfum við komist þangað sem við erum, inn á völlinn með stóru strákunum. Þar viljum við líka vera. Viljum við eitthvað hætta því? Viljum við lognmolluna sem þyrfti að vera til staðar í efnahagslífinu til að litli báturinn okkar næði stöðugleika stóru bátanna sem krafist er við Evruaðild?
Það er oft erfitt að bæði borða kökuna og eiga hana...
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.