7.10.2008 | 12:18
Féð öruggara á Íslandi en í Skotlandi - Er að gerast um allan heim
Féð öruggara á Íslandi en í Skotlandi
Ég bý í Edinborg í vetur þar sem konan mín er í námi. Við vorum að opna bankareikning hérna úti og nú velti ég því fyrir mér hvort ég eigi að flytja peninginn minn sem er í Landsbankanum út eða hafa hann á Íslandi. Ég er eiginlega kominn á þá skoðun að hann sé öruggari á Íslandi. Þar eru fáir stórir bankar sem verður ekki leyft að fara á hausinn. Ríkisstjórnin er auk þess búin að segjast munu tryggja allar innstæður. Hérna er fullt af bönkum og því mun líklegra að einstökum bönkum verði leyft að fara á hausinn. Verður það minn banki?
Er að gerast um allan heim
Íslenskir fjölmiðlar eru uppteknir af aðstæðum á Íslandi. Farðu inn á erlenda fjölmiðla og þá sérðu að það nákvæmlega sama er í gangi um allan heim.
Lehman brothers, 150 ára gamall banki í Ameríku, sem var skilgreindur sem einn traustasti banki veraldar er ekki til lengur. Merril Lynch er líka farinn. Bandaríkjastjórn tók yfir stærstu íbúðalánasjóðina og tryggingarfélagið. Risavaxin fyrirtæki. Nú síðustu daga hafa bankar í Evrópu fallið eins og flugur. Í gær var talað um að þýska stjórnin hefði verið að bjarga sama bankanum í annað sinn á einni viku. Nú er talað um að The Royal Bank of Scotland hafi verið að sækja um neyðarlán til yfirvalda. Risavaxinn mörg hundruð ára gamall banki, gott ef saga hans nær ekki aftur á 16. eða 17. öld. Danir hafa verið að bjarga bönkum þar, Belgar, Frakkar, Grikkir, Rússar og fleiri.
Við erum einfaldlega í alþjóðlegum ólgusjó og nú hefur ríkisstjórnin tekið sjálfstýringuna úr sambandi og stýrir skipinu handvirkt í gegnum skerjagarðinn. Markmiðið er að takmarka tapið og koma áhöfn og farþegum í sem bestu ástandi út hinum megin. Steininn tók úr á alþjóðlegum mörkuðum í gær, mánudag, þegar panikkástand myndaðist á öllum mörkuðum um allan heim. Það byrjaði þegar markaðir voru opnaðir í Asíu og hélt síðan áfram þegar markaðir voru seinna opnaðir í Evrópu og loks í Ameríku. Menn telja að 93 milljarða punda virði af hlutabréfum hafi orðið lækkuninni að bráð á breska hlutabréfamarkaðnum í gær. 93 milljarðar punda á einum degi. Það er því eðlilegt að það gefi töluvert á bátinn á Íslandi þar sem við erum orðin virkir þátttakendur í alþjóðlegu fjármálalífi.
Útrásin hefur gefið okkur bæði þekkingu og styrk til að takast á við þetta ástand sem er núna. Eftir niðursveifluna munum við standa miklu sterkari en við vorum áður en útrásin hófst, þökk sé þeim styrk og þeim aðgerðum sem Geir, Davíð og félagar eru að vinna í núna. Þetta eru öflugir menn sem fara ekki á límingunum í átökum heldur standa í lappirnar og taka þær ákvarðanir sem þarf að taka þrátt fyrir misvitra aftursætisbílstjóra. Það verður okkar gæfa.
Þetta tekur nokkra mánuði og síðan fer að vora. Við höfum áður komið okkur í gegnum strembna vetur.
Reiðir viðskiptavinir Landsbankans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
kærar þakkir fyrir þennan pistil, Sigurður
Líney Halla (IP-tala skráð) 7.10.2008 kl. 16:06
Ég get nú eiginlega ekki tekið undir þetta hjá þér Siggi minn. Um leið og LÍN lánið kom í gegn og Glitnir gaf mér yfirdrátt millifærði ég allt draslið á írska reikninginn minn. Sá er tryggður af írska ríkinu OG danska ríkinu af því að ég er hjá National Irish Bank sem er undirfyrirtæki Danske Bank. Það er nefnilega þannig að það eru ekkert japl jaml og fuður hjá frændum okkar dönum, þeir gangast við sínum ábyrgðum möglunarlaust.
Varðandi hinn svokallaða styrk okkar misvitru foringja. Var það ekki DO sem "misskildi" rússneska sendiherrann og hélt að okkur hefði verið lofað margra milljóna evru láni frá Rússum. Það var víst bara verið að samþykkja að tala við okkur, ekki lána peningana! Geir og dýralæknirinn hafa svo verið svo hrikalega tvístígandi varðandi eignir breskra sparifjáreigenda að Dairling þurfti að bregðast við með því að frysta eigur Kaupþings. Þegar vesenið var að byrja hafði Geir ítrekað verið staðinn að því að segja ekki satt eða allavega ekki virðast hafa hugmynd um hvernig ætti að bregðast við "enginn aðgerðapakki.... eða... jú, aðgerðapakki" og svo básúnar Doddson í fjölmiðlum eins og hann sé enn pólitíkus og er að verða að athlægi um alla Evrópu.
Við skulum vona að þetta verði þó til þess að þessir menn segi af sér og við fáum eitthvað hæft lið þarna inn í staðinn!
Jón Grétar Sigurjónsson, 9.10.2008 kl. 21:16
Sæll Jón,
Einhvern veginn er svo langt síðan á þriðjudaginn. Margt hefur gerst síðan þá. Staðan hérna á Bretlandi hefur batnað mjög eftir útspil ríkisstjórnarinnar. Maður heyrði hluti eins og að Royal Bank of Scotland væri á leiðinni á hausinn. Þá var nú fokið í flest skjól. Ég var í dag að reyna að flytja peninginn hingað út þar sem ég er loksins kominn með bankareikning. Það tókst ekki. Reyni aftur á morgun og síðan eftir helgi. Þurfum að greiða skólagjöldin í lok mánaðarins.
Það sama verð ég að segja um Davíð Oddsson. Ég hélt að Davíð væri maðurinn, 15 ára reynsla sem forsætisráðherra, mikil sambönd erlendis, fær um að standa í lappirnar þegar á móti blæs. Kastljósviðtalið og það sem hefur verið að gerast hefur fengið mig til að skipta um skoðun. Hann er búinn og á að fara. Það hefur einfaldlega fjarað algerlega undan honum.
Geir er hins vegar að standa sig nokkuð vel finnst mér. Hann er auðvitað að leiða landið handvirkt í gegnum gríðarlega erfitt verkefni og hlýtur að gera einhver mistök á leiðinni. Annað held ég að sé bara óumfllýjanlegt. Þetta er líklega erfiðasta verkefni íslenskrar ríkisstjórnar, og þar með forsætisráðherra a.m.k. síðan síldin fór. Jafnvel erfiðasta verkefni allra tíma. Geir er ekki öfundsverður. Hann gerði hins vegar mistök með því að ljúga að þjóðinni um Glitnishelgina, eftir að hann kom heim. Það skaðaði trúverðugleika hans varanlega. Ég veit ekki hvort hann lifir það af.
Sigurður Viktor Úlfarsson, 10.10.2008 kl. 00:09
Sæll Siggi,
Mér datt nú í hug að þú værir búinn að skipta um skoðun, þetta er búin að vera hálf vitlaus vika og vonandi að við þurfum ekki að fara í gegnum svona alveg strax aftur. Ég verð eiginlega að viðurkenna að maður er algerlega ráðvilltur hérna úti, veit ekki hvernig best er að fara að þessu öllu saman. Ég má enn aur frá yfirdrættinum hjá Glitni og reyni kannski að koma honum hingað út í sameinað bankaskjól dana og íra. En þú segir að þið hafið verið í vandræðum með að millifæra milli landa, endilega láttu mig vita hvernig það gengur. Ég vona svo sannarlega að ykkur takist að koma aurunum úr landi og borga skólagjöldin.
Verðum við ekki núna bara að vona að það verði fenginn inn her af spesíalistum til að hjálpa Geir Góða og félögum úr þessari vitleysu. Það eru jafnvel teikn á lofti um að Samfó vilji sprengja ríkisstjórnina og myndi væntanlega nota Davíð Oddsson sem ástæðu til þess að gera það. Það eina góða við slíka bombu væri að við myndum væntanlega færast nær Skandinavísku velferðarmódeli og það er aldrei að vita nema að umheimurinn sæi slíkan gjörning sem jákvæðann. Bretar og fleiri sæu það þá væntanlega þannig að við hefðum rekið Davíð og aðra sem þeir sjá sem vanhæfa og svoleiðis hreinsun lítur allavega vel út, hvort sem hún er góð eða ekki, og markaðir virðast að miklu stýrast af útliti eða skynjun fólks frekar en raunverulegum aðstæðum.
En, eins og ég sagði, endilega láttu vita á blogginu hvernig ykkur gengur að færa fé milli landa. Ég slapp með skrekkinn en hugurinn er hjá vinum og kunningjum sem eru í svipaðri aðstöðu erlendis og maður er ekki fullkomlega í rónni.
Bestu kveðjur frá Írlandi
Jón Grétar Sigurjónsson, 10.10.2008 kl. 08:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.