Tilgangur OR samkvæmt lögum...Góð og slæm umræða

Góð og slæm umræða um þetta mál kristallaðist á bls. 8 í Fréttablaðinu í dag.  Þar voru á sömu blaðsíðu þrír aðilar sem skrifuðu um málið.  Jón Kaldal ritstjóri í pistli sínum, Illugi Gunnarsson þingmaður og Svandís Svavarsdóttir borgarfulltrúi.

Pistill Jóns var mjög góður og gaf yfirsýn yfir mismunandi skoðanir á málinu.  Illugi kom einnig með rök og lagði þau fram skilmerkilega.  Maður var einfaldlega annað hvort sammála honum eða ekki. 

Svandís hefur hins vegar annan stíl.  Þann leiðinlega stíl að leggja meiri áherslu á persónulegt skítkast, eitra andrúmsloftið og virðist hafa það að markmiði að gera hluti tortryggilega fremur en að ræða rök málsins.  Hjá henni er allt spilling og sífellt verið að brjóta á henni.  Þetta er afarleiðinlegur umræðustíll og drekkir rökum málsins í drama og persónulegum óhróðri og er þetta henni til minnkunar því annars er hún rökföst, kemur vel fyrir sig orði og ætti ekki að þurfa að beita þessum aðferðum til að fá athygli fjölmiðla.

Hennar umræða snérist fyrst og fremst um að það hafi verið karlar í stjórninni sem veittu öðrum körlum rétt til að kaupa hlutabréf o.s.frv.  Af hverju var hún að ræða þetta?  Hver var tilgangurinn?  Þessir þrír karlar í stjórninni eru Bjarni sem er einfaldlega hluthafi í fyrirtækinu og kemur þarna inn sem einn af eigendum, stjórnarformaður og varaformaður stjórnar OR sem báðir voru lýðræðislega skipaðir í stjórn fyrirtækisins við stofnun þess.

Illugi ræddi hins vegar um þá grundvallarskoðun hvort OR ætti að taka þátt í þessari útrás yfirhöfuð sem opinbert fyrirtæki.  Hvort hún ætti að leggja þessu verkefni lið eða hreinlega hundsa þau tækifæri sem eru í boði og láta aðra um að takast á við þau.

Í 2. gr laga 139/2001 um stofnun Orkuveitu Reykjavíkur er tilgangur fyrirtækisins útlistaður:

2. gr. Tilgangur Orkuveitu Reykjavíkur er vinnsla og framleiðsla raforku, varma og vatns, dreifing og sala afurða fyrirtækisins ásamt hverri þeirri starfsemi annarri sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað fyrirtækisins, sem og iðnþróun og nýsköpun af hverju tagi, ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni.
Heimilt er Orkuveitu Reykjavíkur að reka dótturfélög og eiga hlut í öðrum félögum.

Samkvæmt þessari skilgreiningu laganna eru stjórnendur OR að gera nákvæmlega það sem þeim er ætlað til.  Þeir mega eiga dótturfélög og hluti í öðrum félögum, þeir mega taka þátt í "hverri þeirri starfsemi annarri sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað fyrirtækisins".

Vilji stjórnmálamenn vængstífa OR og láta fyrirtækið einungis sjá um að reka veitur innan sveitarfélaga eigendanna þá er það grundvallarbreyting á tilgangi fyrirtækisins samkvæmt lögum.  Þetta er sú pólitíska spurning sem stjórnmálamennirnir eiga að vera að svara en ekki standa í persónulegu skítkasti gagnvart þeim einstaklingum sem eru að vinna vinnuna sína í samræmi við lagalegan tilgang fyrirtækisins.  Ef það verður niðurstaðan þá vinna menn eftir því.  Þangað til vinna menn eftir þeim lögum sem eru í gildi í dag og ber stjórn OR ábyrgð á því að framfylgja þeim og nýta þau tækifæri sem bjóðast innan ramma laganna.


mbl.is Þorgerður Katrín: Of geyst farið í samruna GGE og REI
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Þú segir að skv. lögum um Orkuveituna segi:

Samkvæmt þessari skilgreiningu laganna eru stjórnendur OR að gera nákvæmlega það sem þeim er ætlað til.  Þeir mega eiga dótturfélög og hluti í öðrum félögum, þeir mega taka þátt í "hverri þeirri starfsemi annarri sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað fyrirtækisins".

En nú er RAI orðið sjálfstætt fyrirtæki sem Orkuveitan á um 35% í. Því er nokkuð ljóst að RAI notar ekki í framtíðinni þekkingu eða búnað OR því þetta eru orðin 2 aðskilin fyrirtæki. Því verður ekki um notkun á þekkingu OR eða búnaði nema að RAI kaupi hana af OR. Og náttúrulega öfugt. Raunin er að þessi þekking er á leið út úr OR yfir til fjárfesta.

Magnús Helgi Björgvinsson, 8.10.2007 kl. 00:04

2 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

REI kaupir þessa þekkingu af OR á nákvæmlega sama hátt og það kaupir hönnunina af VGK/Hönnun og boranirnar af Jarðborunum.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 8.10.2007 kl. 12:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband