Flytjum Keflavíkurflugvöll í bæinn - Sameinum Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvöll á Löngusker

Það er búið að velta flugvallarmálinu í kerfinu í meira en áratug því enginn kemur með lausnir sem virka í raun. Allir segja “Flugvöllinn burt” en enginn segir “hvert”. Því er væntanlega kominn tími til að hugsa út fyrir kassann. Þetta má kosta töluvert því verið er að horfa til 50-100 ára og miklir hagsmunir í húfi.

Möguleg lausn gæti t.d. byggst á eftirfarandi þáttum
1. Keflavíkurflugvöllur og Reykjavíkurflugvöllur yrðu sameinaðir á Lönguskerjum. Vandamálið við flugvöll þar er selta en það er viðfangsefni sem við látum í hendur á verkfræðingunum að leysa.
2. Keflavíkurflugvöll yrði seldur einkaaðilum sem gætu t.d. komið þarna upp fríhafnarsvæði milli Evrópu, Ameríku og Asíu (við erum að tala um eftir 5-10 ár - þá er talið líklegt að hægt verði að fljúga yfir pólinn til Asíu). Við þá yrði einnig samið um að hægt væri að nýta Keflavíkurflugvöll sem varaflugvöll.

Með því leystist eftirfarandi:

  • Hægt yrði að byggja í Vatnsmýrinni.
  • Haldið yrði í veðurskilyrði Reykjavíkurflugvallar að mestu.
  • Varaflugvöllur væri til staðar (sjá að neðan).
  • Stutt yrði á flugvöllinn úr höfuðstaðnum.
  • Stutt yrði af flugvellinum á Landspítalann vegna sívaxandi sjúkraflugs.
  • Eitthvað af kostnaðinum við uppbyggingu Lönguskerja fengist til baka með sölu Keflavíkurflugvallar og þeirri hagræðingu sem fælist í því að reka einn flugvöll en ekki tvo eins og við gerum í dag.
  • Dregið yrði úr þjóðhagslegum kostnaði tengdum millilandaflugi sem í dag endurspeglast í því að allir sem fljúga til og frá Keflavík (2,2 milljónir farþega á ári) þurfa að keyra alla leið þangað og þaðan sem er mjög dýrt, bæði með tilliti til fjárhagslegra þátta og umhverfislegra.

Er þetta raunhæfur kostur? Sláum hann a.m.k. ekki út af borðinu fyrr en búið er að meta hann til fulls.

 

Aðrir kostir

Hólmsheiði fráleitur kostur
Hólmsheiði er auðvitað algerlega fráleitur kostur flugrekstrarlega séð og umhverfislega (v/vatnsbóla)því hún er í 120 metra hæð yfir sjávarmáli, þokubakki liggur mjög oft yfir Hólmsheiðinni auk þess sem hún er næsta hæð við helsta vatnsból Reykvíkinga og því væri það fráleit hugmynd að koma þar fyrir starfsemi eins og flugvelli.

Innanlandsflugið flutt til Keflavíkur?
Mér skilst af flugmönnum að það sé oft mjög erfitt fyrir litlar vélar að lenda Í Keflavík og að verði flugvöllurinn fluttur þangað muni flug falla niður verulega fleiri daga ársins en nú er.

Að öðru leyti væri hægt að leysa samgönguvandann með lest sem færi þessa leið á 300 km hraða og væri 10 mínútur á milli. Þar með myndi vegalengdin ekki skipta máli. Hægt væri að setja hana upp fyrir gróðan af Vatnsmýrinni.

Þá er hins vegar óleyst vandamál varðandi varaflugvöll fyrir millilandaflugið. Reykjavíkurflugvöllur er varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll. Ef hann dettur út þá þarf að tryggja að annar varaflugvöllur sé til staðar svo flugvélar þurfi ekki að bera bensín til að lenda á varaflugvelli í Skotlandi ef eitthvað klikkar í Keflavík. Það væri ekki til að lækka verðið á farmiðunum okkar.  Mögulega væri hægt að byggja upp varaflugvöll á Suðurlandsundirlendinu einhvers staðar en slíkt væri mjög dýrt miðað við aðra notkun vallarins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Ásgeirsson (Icerock)

kanntu fleiri brandara :) lol

Þorsteinn Ásgeirsson (Icerock), 29.8.2008 kl. 00:19

2 identicon

Þú getur ekki slegið Hólmsheiðina svona út af borðinu Sigurður. Vatnsbólin eru öll djúpt neðan jarðar en öll starfsemi á flugvellinum ofanjarðar, nema í mesta lagi bílakjallarar og geymslur sem þarf að grafa niður. Reykjavíkurflugvöllur er til dæmis stutt frá vatnstönkunum í Öskjuhlíð og þar er flogið margoft á dag. Hefur það verið athugað hvort 120m hæð yfir sjávarmáli gæti haft áhrif á bensínbrennslu á flugvélum? Samkvæmt lögmálum eðlisfræði hefur hæðarstig áhrif á loftþrýsting og því um leið brennsluhraða í þotuhreyflum, þetta þarf allt saman að skoða.

Hvernig tryggirðu að haldið verði í verðurskilyrði í Reykjavík ef flugvöllurinn er færður? Í Vatnsmýrinni rísa eflaust speglasalir og skýjaklaufar, sem munu ekki eingöngu hafa áhrif á veðurfar, heldur einnig dýralífið á Tjörninni. Ertu tilbúinn að fórna vistkerfi borgarinnar á altari einstaklingshyggjunnar, Sigurður?

Og annað: Það verður ekki hagkvæmt að fljúga pólmegin til Asíu. Tyrkland er til dæmis í Asíu þótt þeir stefni eindregið að Brussels. Það verður alltaf styttra að fljúga suður um bóg til Tyrklands, en ekki um pólinn, til dæmis yfir Mið Evrópu eða suður um Ítalíu eða Spán. Þetta mun ekkert breytast á næstu árum.

Ágúst Schweitz Eriksson (IP-tala skráð) 5.9.2008 kl. 14:14

3 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Velkominn Ágúst.

1. Hólmsheiðin er fráleitur staður fyrir flugvöll.  Hitastig í 120 metra hæð er 1-2 gráðum kaldara en við núverandi flugvöll.  Þá eykur þessi hæð vindhraða verulega.  Þeir sem þekkja til vita líka að mjög oft liggur þokubakki yfir Hólmsheiðinni. Slíkt eykur tíðni ísingarástands, eykur kostnað við snjómokstur, afþýðingu o.þ.h. sem jafnframt eykur slysahættu.  Þetta skiptir grundvallarmáli í flugvallarrekstri og hefur mikil áhrif á það hversu oft á ári flugvöllurinn er lokaður vegna veðurs.  Það aftur hefur grundvallaráhrif á áreiðanleika innanlandsflugsins sem og sjúkraflugsins.

2. Hvað vatnsbólið áhrærir er auðsýnt að mengun af flugvellinum á eftir að berast með árum og áratugum ofan í grunnvatnið og þá þarf að vera mjög á hreinu hvort slík mengun geti borist niður af heiðinni í átt að Gvendarbrunnum.  Samlíkingin við tankana í Öskjuhlíð er fráleit þar sem vatnsbólið er varanleg langtíma uppspretta en innihald tankanna í Öskjuhlíð einfaldlega geymsluvatn sem má skipta um á nokkrum klukkutímum ef flugvél krassar á tankana eða þeir byrja að leka af öðrum ástæðum.  Ef slíkar skemmdir á tönkunum myndu ekki eiga sér stað akkúrat þegar mest eftirspurn er eftir vatni þá myndu neytendur ekkert verða þess varir.

3.  "Hvernig tryggirðu að haldið verði í verðurskilyrði í Reykjavík ef flugvöllurinn er færður?"

Ég þekki ekki veðurskilyrði á Lönguskerjum svo neinu nemi.  Löngusker eru hins vegar niðri við sjávarmál og aðeins steinsnar frá núverandi flugvallarstæði.  Núverandi flugvöllur er mjög vel staðsettur veðurfarslega og ég býst við því að veður á Lönguskerjum sé ekki langt frá því sem það er á núverandi flugvelli.

Hvað uppbyggingu í Vatnsmýrinni áhrærir þá er búið að leggja fram hugmyndir hvað hana snertir og er þar lítið um skýjakljúfa og speglasali.  Slíkar byggingar hafa líka fyrst og fremst staðbundin veðurfarsleg áhrif og það kæmi mér á óvart ef þau hefðu áhrif úti á Lönguskerjum.  Hvað dýralífið áhrærir held ég að byggð muni frekar vera hvati til að halda við dýralífi á þessu svæði frá því sem nú er.

4. Þegar ég tala um flug til Asíu er ég ekki að tala um Tyrkland heldur frá Vesturlöndum til Austur-Asíu (Kína, Hong kong, Japan, Singapoure, Bangkok o.s.frv.).  Með  langdrægari flugvélum og meiri umferð á hefðbundnum flugleiðum austur og vestur mun flug í auknum mæli flytjast norðurfyrir.  Þá verður Ísland lykilstaðsetning sem gefur mikil tækifæri á því að vera tengiflugvöllur (hub), ekki bara milli Evrópu og Ameríku eins og í dag heldur bæta þriðja leggnum við sem er Austur-Asía með öllum þeim tækifærum sem þar bíða og allri þeirri aukningu sem fyrirsjáanleg er á næstu áratugum í samskiptum Vesturlanda og Austur-Asíu.

Þessi umræða er búin að fara í hringi í 10-20 ár.  Það hefur ekkert nýtt komið fram svo árum skipti.  Umræðan snýst aðalega um það hvort flugvöllurinn eigi að fara eða vera.  Umræðan á að vera samanburður á þeim kostum sem til eru og er núverandi staður, einfaldlega einn þeirra kosta sem sínum kostum og göllum.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 5.9.2008 kl. 18:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband