21.9.2008 | 22:19
Endurspeglar afstöðu sveitarfélaganna á hbsv til almenningssamgangna
Þetta mál endurspeglar afstöðu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu til almenningssamgangna. Strætó Bs. er sameignarfélag sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Fyrirtækið er endalaust olnbogabarn. Endalaus uppspretta kostnaðar sem er ekki að öllu leyti kostnaður viðkomandi sveitarfélags og því berjast þau um að þurfa að greiða sem minnst. Því minna því betra. Afleiðingin er fjársvelt almenningssamgöngukerfi sem virkar illa og afleiðingin af því er sú að almenningssamgöngur hafa afarlitla markaðshlutdeild meðal þeirra sem hafa aðra möguleika, þ.e. eru komnir á bílprófsaldur.
Af hverju þarf að breyta þessu?
Markmiðið með almenningssamgöngum er til langs tíma að draga úr þeim fjármunum sem annars færu í umferðarmannvirki, að draga úr mengun vegna bifreiða. Leiðin til að ná ofangreindum markmiðum er sú að efla almenningssamgöngur, gera þær að samkeppnishæfum valkosti.
Ég er sannfærður um að gott almenningssamgöngukerfi getur skapað bíl númer 2, 3, 4... á heimilum töluverða samkeppni. Skv. FÍB kostar að lágmarki 770 þúsund að reka lítinn bíl sem er keyrður 15 þúsund km. á ári. Fjölskyldur sem taka þá afstöðu að reka einungis einn bíl (eða engan) og taka þess í stað strætó fá því 770 þúsund í viðbótarráðstöfunartekjur á ári skattfrjálst. Þetta samsvarar rúmlega milljón króna launahækkun árlega fyrir skatt! Það er því eftir töluverðu að slægjast fyrir neytendur.
Lausnin er því að koma á góðu almenningssamgangnakerfi sem er samkeppnishæft. Það kostar mikla fjármuni en það sparar líka mikla fjármuni, að ekki sé minnst á umhverfisþáttinn.
Hvað er til ráða?
Núverandi skipulag almenningssamgangna gengur ekki. Þetta skipulag sameignarfélags sveitarfélaganna er ekki að "spila sóknarbolta". Þetta er batterí sem hangir á horriminni og mun aldrei þróast neitt því það kostar fjármuni sem sveitarfélögin munu aldrei vera tilbúin að leggja í verkefnið, a.m.k. aldrei öll á sama tíma.
Eini aðilinn sem ég sé mögulegan til að snúa vörn í sókn er Orkuveita Reykjavíkur. Væri Strætó Bs. fært undir OR og verkefninu mörkuð skýr framtíðarsýn gæti það valdið fullkomnum viðsnúningi.
Þegar OR byggir upp sýn veitukerfi er ekki verið að hugsa til skamms tíma. Markmiðið er að ná fram hagnaði á 25 til 40 árum. Fyrirtækið hefur burði til að setja mikla fjármuni í verkefnið með það að markmiðið að markaðshlutdeildin verði orðin almennilega eftir 25-30 ár. Stór höfuðborgarsvæðið nær núna frá Bifröst til Reykjavíkur, út á Reyjanes og austur að Hvolsvelli. Allt þetta svæði þarf að leggja undir eina heildstæða almenningssamgangnaáætlun. Langtímauppbyggingu. Almenningssamgöngur eru í eðli sínu veitustarfsemi þar sem fólki er "veitt" frá einum stað til annars. Um er að ræða "logistic" þar sem verkfræði og umhverfisvænir orkugjafar eru í öndvegi. Það að sameina þekkingu OR og Strætó á þessu sviði væri verkefninu klárlega styrking. Sveitarfélögin myndu ekki heldur þurfa að punga út miklum fjármunum fyrir þennan málaflokk. OR setti í þetta fjármunina og fengi þá tekjurnar þegar fram líða stundir.
Fyrsta skrefið er að flytja starfsemi Strætó undir OR og skapa því skýra og metnaðarfulla framtíðarsýn. Ég treysti starfsfólki OR og Strætó fullkomlega til að fara alla leið í þessum málaflokki eins og öðrum sem OR kemur nálægt.
Það er kominn tími til að hætta að tala og byrja að framkvæma.
Segja þvert nei við kostnaði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það kostar að lágmarki 770 þúsund að reka lítinn nýjan bíl.
Um 300000 krónur, eða 40% af þessu eru verðrýrnun og fjármagnskostnaður. Ef maður á eldri bíl og/eða hefur efni á að borga bílinn án bílalána, er kostnaðurinn auðvitað minni.
Eins finnst mér flestir liðirnir þarna fáránlega háir:
Dýrasta trygging á elisabet.is er 30þ lægri . Minna á notuðum bíl (og enn minna án kaskó).
30500kr á ári í dekk (ný sumar- eða vertrardekk árlega - eða er þetta umfelgun 2x á ári á verkstæði?).
1450kr í þrif og 600kr í stöðumæla á mánuði er frekar mikið.
8000 í viðhald og viðgerðir á mánuði fyrir nýjan bíl? Þrenn olíuskipti og 5000, 10000 og 15000km skoðun ættu ekki að kosta svona mikið, jafnvel þó umboðið geri það.
En þetta slagar samt örugglega upp í hálfa milljón á ári á sæmilegum notuðum bíl - ég myndi villja sjá alvöru almenningssamgöngur hér.
Einar Jón, 24.9.2008 kl. 12:33
Á móti kemur að bílalánahlutinn er ekki nema 25 þúsund á mánuði sem er mjög lágt taki maður útborgunina og dreifi henni yfir tímann. Einnig er gert ráð fyrir mun ódýrari bensínlítra en nú er raunin.
Á móti kemur að ef þú ert með gamlan bíl þá er ekki ólíklegt að eitthvað annað komi í staðinn í formi viðhalds þótt þetta sé auðvitað eitthvað meðaltal og því eðlileg frávik í báðar áttir.
Þetta er alla vega það sem sá fær upp í hendurnar (eftir skatta) sem ákveður að kaupa sér ekki bíl. Hann getur t.d. skroppið til Indlands og heilsað upp á þig á fjögurra til sex mánaða fresti!
Sigurður Viktor Úlfarsson, 24.9.2008 kl. 13:19
Það er ein leið að vera bíllaus og ferðast bara meira í staðinn. Ég er með gamla vespu í láni úti, en hún kostar mig sennilega bara brot af græna kortinu hér heima á ári.
Ég held reyndar að 96þ á ári ætti að dekka viðhald og viðgerðir á þeim notuðu bílum sem ég hef átt.
Ég átti a.m.k. VW Jettu '89 árgerð frá 2000 til 2004 (kostaði krónu + 20000kr viðgerð). Hún þurfti sennilega 2-3 aðrar viðgerðir á líftímanum sem kostuðu samtals hátt í 100þ, sem er vel undir þessari tölu (jafnvel þó við hendum 30þ/ári í smurningu og ryðvörn).
En hún dó á endanum svo það er kannski ekki alveg að marka.
Viðhaldið á næsta bíl (gamall Benz, 2004-2008) var mun meira, en nýir bílar ættu að vera ódýrari í rekstri en þetta.
Einar Jón, 24.9.2008 kl. 17:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.