Íslendingar þurfa ekki ódýrara eldsneyti

Nokkar ástæður fyrir því að þjóðin þarf ekki ódýrara eldsneyti:

  • Á undanförnum 10 árum eða svo hefur bílum á höfuðborgarsvæðinu fjölgað um 40-50%. 
    • Fyrir 10 árum síðan (áður en ofangreind aukning átti sér stað) voru Íslendingar þegar orðnir í efstu sætum heims yfir fjölda bifreiða á hvern íbúa.
  • Á mjög mörgum heimilum eru tveir, þrír og jafnvel fjórir bílar.
  • Í stórum hluta bifreiða á götunum situr einungis einn farþegi.
  • Stór hluti bíla á götunum eru stórir jeppar sem margir hverjir fara sjaldan eða aldrei út fyrir malbikið.  Þörfin fyrir svo stóra bíla og eyðslufreka er í besta falli óljós og ekki til þess fallin að draga úr mengun eða notkun á eldsneyti.
  • Notkun almenningssamgangna er mjög lítil.
  • Strætó bs. er í eigu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu sem hafa ekki markað neina þá stefnu sem líkleg er til að breyta markaðshlutdeild almenningssamgangna fyrir svæði í heild.
  • Háar kröfur eru uppi í þjóðfélaginu um að auknu fjármagni sé varið í vegagerð, þ.m.t. tvöfaldanir, göng og aðra þjónustu við einkabílinn sem kosta munu tugi milljarða á næstu árum.

Frestun á vandamálinu en ekki lausn 

Það er ekkert sem bendir til annars en að verð á olíu í heiminum muni hækka á komandi árum.  Ef við ætlum alltaf að lækka bensínskattinn þegar olía og bensín hækka á komandi árum verðum við innan nokkurra ára búin að klára skattinn en olían heldur áfram að hækka.  Við sitjum þá uppi með sama vandamálið og nú en minni tekjur í ríkissjóð til vegaframkvæmda.

Íslendingar þurfa að bregðast við því með því að leita annarra lausna.  Hátt bensínverð mun því vonandi virka sem hvati til breytinga á framtíðarsamgöngumáta almennings á Íslandi og annars staðar í heiminum.

Sértækar lausnir fyrir vörubílstjóra

Ég hef hins vegar ákveðna samúð gagnvart vörubílstjórum sem gegna mikilvægu hlutverki í flutningum og almennum rekstri samfélagsins og fyndist ekki óeðlilegt að reynt yrði að koma til móts við þann kostnaðarauka sem þeir eru að verða fyrir.  Þeir eiga ekki sama möguleika og almenningur að nýta sér minni og sparneytnari bíla eða almenningssamgöngur. 

Ein leið gæti verið sú að þeir fái sérstakt leyfi til að kaupa svokallaða "litaða" olíu á lægra verði en almenningur.  Önnur að þeir yrðu styrktir til kaupa á trukkum sem nýta aðra og mengunarminni eldsneytisgjafa en nú er og að markvisst verði farið í að koma slíkum stöðvum fyrir út um land þar sem vörubílstjórar gætu fyllt á bíla sína með umhverfisvænum orkugjöfum.


mbl.is Lokun vegarins háalvarlegt mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Huldukonan

hmmm... verð nú að segja þér að ég er sammála þér með margt. Það væri nú bara fínt ef íslenskt samfélag gerði ráð fyrir því að fólk nýtti sér almenningsvagna eða hjól eða jafnvel tvo jafnfljóta, það er því miður bara enginn sem hefur tíma hér. Við búum í mjög hröðu þjóðfélagi þar sem allir vinna of mikið og allir verða að komast milli staða sem hraðast til þess að ná að fara heim að elda og sofa. Ef það yrði bara hægt að hægja á öllu, minnka vinnutíma ofl. þá værum við kannski ekki á svona hraðri leið til helvítis.

Ég þarf bílinn minn, því miður.

Huldukonan, 28.3.2008 kl. 00:10

2 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Ég skil vel að þú þurfir bílinn þinn.  Við munum ekki hægja á þjóðfélaginu.  Ég er ekki að sjá það gerast.  Það kostar hins vegar 700-800 þús. kr. á ári að reka lítinn bíl.  Meira að reka stærri og dýrari bíla.  Fjölskyldur með tvo eða þrjá til reiðar geta með því að selja alla nema einn farið með alla fjölskylduna í heimsreisu á 2 ára fresti fyrir peninginn.

Við hljótum að geta fundið betri lausnir á þessu viðfangsefni sem heitir að flytja okkur milli staða.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 28.3.2008 kl. 00:18

3 Smámynd: Óli Þór Atlason

Þakka gott innlegg í umræðuna Sigurður.

Varðandi vörubílstjóra þá lendir kostnaðurinn af hærra eldsneytisverði ekki á þeim beint, heldur á kaupanda þjónustunnar og að lokum á neytendum.  Það virðist því alveg ástæðulaust að ætla að koma sérstaklega til móts við vörubílstjóra.

Óli Þór Atlason, 28.3.2008 kl. 00:18

4 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

...sem aftur bætir samkeppnisstöðu t.d. flutninga á hafi með þær vörur sem krefjast þess ekki að þær séu fluttar samdægurs sem bætir öryggi og dregur úr sliti á vegum.  Þetta er góður punktur.

Þakka góð orð.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 28.3.2008 kl. 00:24

5 identicon

fyrirsögnin hjá þér Sigurður er hinn óþægilegi sannleikur. Við þurfum ekki ódýrara bensín, sérstaklega ekki þegar það er ódýrara en t.d. í Þýskalandi og Danmörku þar sem flest er nú nokkuð ódýrara en hér.

Að mótmæla í Ártúnsbrekku hækkun olíuverðs sem stjórnast af verði á heimsmarkaði og gengi er ekki sérlega gáfulegt.

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 28.3.2008 kl. 01:16

6 Smámynd: Ólafur Guðmundsson

Sigurður, þetta er eins og talað út frá mínu hjarta. Einkabíllinn er stórlega ofmetinn. Það er vægast sagt hjákátlegt að sjá einstaklinga væla í ríkisstjórninni yfir of háu eldsneytisverði á meðan að þeir aka allar sínar ferðir um á stórum og eyðslusömum bílum. Ef menn vilja mótmæla of háu verði á vöru eða þjónustu þá er nærtækast að kaupa ekki þá vöru eða þjónustu. Síðan á auðvitað að beina sínum mótmælum til olíufélagana.

Ólafur Guðmundsson, 28.3.2008 kl. 01:39

7 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Ólafur, ef menn ætla að mótmæla verði á eldsneyti á annað borð þá er eðlilegt að gera það gagnvart þeim sem hirðir meirihluta ágóðans sem er ríkið en ekki olíufélögin.  Hins vegar er ég ósammála því að ríkið eigi að bregðast við þeim mótmælum með lækkun á bensínskattinum.  Það er ekki varanleg lausn.  Eina varanlega lausnin er breyting á því hvernig við ferðumst.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 28.3.2008 kl. 01:49

8 Smámynd: Aron Smári

Frábærir punktar hjá þér alla leið í gegn Sigurður... Íslendingar eru alltaf að miða sig við nágrannaþjóðirnar þegar kemur að svona málum og það er staðreynd að við erum hreinlega of snobbað þjóðfélag til að nota almenningssamgöngur.. Ég er nokkuð viss að ef sætanýting hjá strætó bs. færi að aukast mundu stjórnarmenn draga hausinn útúr rassgatinu á sér og virkilega gera eitthvað gott fyrir strætó sem er okkar eina von fyrir góðar almenningssamgöngur því underground system kostar hreinlega allt of mikið fyrir okkar snobbuðu þjóð.

Aron Smári, 28.3.2008 kl. 02:33

9 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Vegna veðurs þarf almenningssamgangnakerfi að vera framúrskarandi gott til að það sé samkeppnishæft á Íslandi.  Við eigum fullt af peningum og á döfinni er að nota þá í tugmilljarðavegaframkvæmdir á Suðvesturhorninu á næstu tíu árum með tvöföldun Suðurlandsvegar, Reykjanesbrautar, Vesturlandsvegar þ.m.t. Hvalfjarðarganga, Sundabraut o.s.frv.

Hver yrði niðurstaðan ef við settum þessa milljarðatugi í almennilegt almenningssamgangnakerfi fyrir stórhöfuðborgarsvæðið frá Borgarfirði, út á Reykjanes og austur á Hvollsvöll?  Mér dettur aðeins einn aðili í hug sem gæti tekið þetta upp á sína arma og framkvæmt og það er Orkuveita Reykjavíkur.  Hún er með starfsemi í meira og minna öllum þessum sveitarfélögum og með því að flytja Strætó bs. undir OR þá væri hægt að sameina þá verkfræði- og logisticþekkingu sem til er hjá Strætó þeirri verkfræði- og logisticþekkingu sem til er hjá OR.  Almenningssamgöngur eru jú ekkert annað en veitustarfsemi sem snýst um að flytja hluti úr öllum húsum á veitusvæðinu í öll hús á veitusvæðinu.  Það er bara fólk en ekki vatn í rörunum og þau eru ofanjarðar.

Það þarf fyrst að búa til almenningssamgangnakerfi sem er samkeppnishæft.  Þá myndi fólk skipta bíl númer tvö og þrjú út og fá 700-1500 þús. í vasann á ári fyrir að greiða ekki kostnaðinn af rekstri bílanna.  Flestir myndu halda eftir einum bíl.  Þegar almenningssamgöngurnar væru komnar með markaðshlutdeild upp á 30% þá erum við að tala um allt annað umhverfi heldur en núna þegar langt innan við 5% fólks notar strætó.

Það þarf að:

  1. Bæta almenningssamgangnakerfið verulega.  Algjörlega ný vídd.
  2. Gefa frítt í strætó tímabundið í 10-15 ár á meðan verið er að búa til almenningssamgangnamenningu á Íslandi.  Síðan er hægt að setja gjaldið á aftur.
  3. Þá erum við komin með nægilega stóran notendagrunn að kerfinu til að halda því gangandi.

Núverandi smáskammtalækningar sveitarfélaganna í Strætó bs. sem ekkert mega kosta virka ekki nokkurn skapaðan hlut.  Það þarf byltingu í þessum málaflokk og ég sé einfaldlega engan aðila sem getur framkvæmt þetta heildrænt annan en OR.  Séu fleiri í boði endilega látið vita.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 28.3.2008 kl. 03:01

10 identicon

Einkabílinn er flestum nauðsyn og þú finnur ekki land þar sem hann er mikilvægari en einmitt hérna. Að rembast við lélegar strætisvagnasamgöngur með mörgum milljörðum í tapi er fáránlegt þegar stór meirihluti kýs einkabílinn, ódýrari rekstur og fjölgun leigubíla er gáfulegra. Við þurfum ódýrara eldsneyti vegna þess að rök ríkisvaldsins hefur verið það að álagningar eigi að fara í vegakerfið, en raunin er sú að seinustu árin hefur aðeins 1/3 endað þar og ríkiskassinn að springa. Einkabílinn einfaldlega hentar best þar sem lítil þjóð er í stóru landi, jafnvel á höfuðborgarsvæðinu þá þurfum við að þétta byggðina og hækka byggingar svo það sé hægt að koma á almennilegum samgöngum. Einkabílinn mun því henta best áfram allavega næstu áratugina.

Þú þarft kannski ekki ódýrara eldsneyti en láglaunafólk sem svitnar yfir því að reka litla eyðslulitla bíla eru örugglega fylgjandi því.

Geiri (IP-tala skráð) 28.3.2008 kl. 05:49

11 identicon

Hafþór: Og hvar er réttlætingin fyrir því? Ertu einn af þessum öfgagrænu sem villt þvinga aðra á reiðhjól eða í kolefnisjafnaða strætisvagna? Eða hvað er málið? Nú veit ég um öryrkja sem rembast við að reka litla eyðslulitla bíla eins og t.d. Citroen C1 eða Aygo, vegakerfið yrði nú lengi að slitna ef allir væru á slíkum bílum. Það eru ekki allir að rúnta um á jeppum. Hefur þú haft samvisku í það að mæta slíkum aðila og útskýra réttlætinguna á það að ríkið fái meira heldur en 2/3 í gróða? Það er enginn að tala um að niðurgreiða heimsmarkaðsverð, slíkt er auðvitað ekki sniðugt. En hinsvegar er bara raunin sú að ríkið hefur verið að taka allt of mikið til sín seinasta áratuginn. Bandaríkjamen tala um olíukreppu þó að þeir hafi 3x ódýrara eldsneyti, samt eru færri þar á einkabílum.

Vegakerfið er ÖLLUM mikilvægt og nauðsynlegt. Þegar kemur að öryggi, þægindum og efnahagi. Miðað við álagninguna þá er eins og bílaeigendur hafa verið að borga undir sig, aðra sem nota vegakerfið (frítt) og svo er sú upphæð hækkuð um 2-3x. Raunin er sú að jafnvel þó ríkið auki framkvæmdir að þá er svigrúm til þess að lækka álagningar um allavega helming. Sjálfur reyni ég að takmarka eigin keyslu og ætla meira að segja að fá mér rafmagnsbíl í náinni framtíð fyrir borgarakstur. En í millitíðinni er ég ósáttur við háa og óréttlætanlega álagningu. Jafnvel þó það séu áætlanir um að eyða meira í vegakerfið (sem er sjálfsagt enda er það lélegt miða við ríkidæmi þjóðarinnar) að þá er samt hægt að hafa sanngjarni leiðir. Þeir sem ganga, hjóla eða taka strætisvagna eru líka að nota vegakerfið, ásamt því að flestir fá auðvitað stundum far í einkabílum eða taka þátt í efnahagi þar sem vegakerfið er mikilvægt. Þar sem vegakerfið er almennt þjóðfélaginu mikilvægt þá mætti dreifa álagningunni. T.d. að helmingur komi frá álagningum og svo helmingur frá almennum sköttum, svo að álagið sé ekki bara á þeim sem eiga / reka faratæki.  Svo ætti að vera betri leið til þess að rukka fyrir helminginn sem kemur frá álagningu, t.d. þyngdXlengd (með ökumælum eða áskriftarpökkum) og hafa bara virðisaukaskatt á líternum. Auðvitað eigum við að undirbúa okkur undir hugsanlega olíukreppu og fagna faratækjum sem ganga fyrir öðrum orkugjöfum. En hinsvegar er óþarfi að henda okkur fyrir lestina á undan öðrum með óraunhæfri álagningu. 

Svo má ekki gleyna því að einkabílinn mun lifa áfram þó að olíukreppa skelli á. Ekki gáfulegt að troða fólki í samgöngur gegn eigin vilja þegar ódýrari og umhverfisvænni faratæki eru handan við hornið. T.d. getum við búist við því að kapphlaup í fjöldaframleiðslu á rafmagnsbílum hefjist af alvöru núna í kringum 2010-2015. Þjóðir eins og Indland og Ísrael eru með vatn í munninum að skipta út olíunni. 

Geiri (IP-tala skráð) 28.3.2008 kl. 13:03

12 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Það er rétt, það virkar ekki að þvinga.  Það vantar hins vegar annan samkeppnishæfan valmöguleika en einkabílinn á samgöngumarkaðinn.  Sá valmöguleiki er ekki til staðar í dag.  Fólk verður að velja bílinn.  Ef bílunum á götunni fækkar um 20-30% vegna þess að aðrir möguleikar verða gerðir samkeppnishæfir í gæðum þá kannski þurfum við ekki að fara í alla þessa tvöföldun á vegunum okkar.

Tek líka heilshugar undir það að við eigum að setja alla hvata sem hægt er á mengunarlitla bíla og hvetja fólk til að velja þá umfram aðra bíla.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 28.3.2008 kl. 13:18

13 Smámynd: Jonni

Það má finna mörg verðugari umræðu- og baráttumálefni en lækkun eldsneytisgjalda. Mér finnst slíkar kröfur alltaf bera vott smámunarlega eiginhagssemi og eindæma þröngsýni. Eins og fleiri hér hafa drepið á mun olíuverð hækka til muna á komandi árum og heimurinn er fullur af vandamálum sem krefjast lausnar. Ég held reyndar að dagar einkabílsins séu að lokum komnir og þessir sem hafa verið að væla um hátt bensínverð verði brátt að finna eitthvað annað að væla um. Væntanlega hátt strætóverð eða reiðhjólagjald ef ég þekki þá rétt.

Jonni, 28.3.2008 kl. 13:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband