30.1.2009 | 15:26
Hárréttur tími fyrir stóriðjuframkvæmd á heilbrigðissviði
Til aukinnar arðsemi þurfa að reiknast afleidd áhrif af þessari "stóriðjuframkvæmd í heilbrigðisþjónustu" á höfuðborgarsvæðinu nú í kreppunni. Stóriðjuframkvæmdir þurfa nefnilega ekki alltaf að heita álver.
Þetta myndi af öllum líkindum hreinsa atvinnuleysisskrá af hönnuðum og arkitektum og öðrum sem koma að byggingarframkvæmdum sem hafa farið mjög illa út úr núverandi árferði og seinna í ferlinu af iðnaðarmönnum sem og mörgum öðrum hópum. Það að losna við viðkomandi af atvinnuleysisskrá reiknast líka til aukinnar arðsemi verkefnisins.
Ég varð fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að eyða viku með barnið mitt á gjörgæsludeild Landspítalans haustið 2007 sem staðsett er í gamla Landspítalahúsinu frá 1930 og fara þaðan yfir á nýja barnaspítalann. Ástandið á gjörgæslunni er einu orði sagt skelfilegt þar sem öllu ægir saman gömlu fólki með niðurgang (það er jú á gjörgæslu og getur ekki séð um ýmsa hluti sjálft), litlum börnum sem haldið er sofandi o.s.frv. allt inni á sömu stofunni. Í hringiðunni miðri er starfsfólkið í stöðugu "slökkvistarfi" að reyna að bjarga því sem bjargað verður. Ástandið er mun verra en ég hefði nokkurn tímann trúað. Það var draumi líkast að komast yfir á nýja barnaspítalann þar sem allt var til taks sem til þurfti.
Einn sparnaðarliður sem ekki er minnst á en ég er viss um að teljist með er að ég er sannfærður um að álag á starfsfólk verði eðlilegra og að fjarvistir þess minnki sem aftur þýðir sparnað upp á hundruð milljóna á ári á 5000 manna vinnustað, stærsta vinnustað landsins.
Ég held að þessi framkvæmd muni borga sig upp hraðar en fólk heldur og ég held líka að krepputímar séu hárréttur tímapunktur til að fara í þessar aðgerðir bæði til þess að fá innspýtingu í hagkerfið og draga úr verðbólguáhrifum sem yrðu til staðar á þennslutímum og líka til þess að draga úr kostnaði í heilbrigðiskerfinu.
Sjúkrahúsið kostar 82 milljarða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.