Afnema leigukerfið - Halda kvótanum - Tillögur

1. Ég held að það sé almennt ekki deilt um að það er óheppilegt að fólk og fyrirtæki sem hvergi koma nálægt útgerð eigi kvóta sem það síðan leigir útgerðunum dýrum dómum.  Það kerfi þarf að afnema, til dæmis með því að skip í eigu þeirrar kennitölu sem á kvótann þurfi að veiða hann líka.  Geri þau það ekki verði kvótaeigendurnir skyldugir að selja hann hæstbjóðanda á markaði innan 12 eða 18 mánaða.  Hægt er að hugsa sér að notast væri við hæsta veidda gildi á þriggja eða fjögurra ára tímabili þannig að ef einhver veiðir 60%, 80% og 90% af sínum kvóta á þremur árum þá þurfi hann að selja 10% (nánari útfærsla óskast).

Þetta myndi gera það að verkum að alltaf væri töluvert magn af kvóta til sölu á markaði sem aftur gerði nýliðum kleift að koma inn í greinina. Þar sem það væri söluskylda á honum á 12-18 mánuðum gætu menn ekki verðlagt hann í hæstu hæðum til að koma í veg fyrir að einhver gæti keypt.  Kvóti sem ekki væri seldur á 12-18 mánuðum væri afskrifaður til ríkisins sem setti hann á markað, seldi hann og skilað hluta (ekki öllu) af söluandvirðinu aftur til fyrrverandi eigenda.

2. Kvótakerfið var sett á í upphafi níunda áratugarins þegar fólk gerði sér grein fyrir því að ákvarða þyrfti heildaraflamark þar sem veiðigeta flotans væri orðin svo mikil að hann gæti veitt allan fiskinn í sjónum á nokkrum árum ef ekkert væri að gert.  Þar með myndaðist skortur og því þurfti að útdeila þessari takmörkuðu auðlind á einhvern hátt. 

Það var hægt að gera með því að stjórnmálamennirnir útdeildu kvótanum eða með því að láta þá sem gátu veitt hagkvæmar kaupa kvóta af þeim sem kusu frekar að selja en að vera í útgerð.

Það var allan tímann ljóst að það gætu ekki allir verið í útgerð áfram sem höfðu verið í útgerð til þess tíma.  Það þurfti því að "dæma lifendur og dauða" í þessari atvinnugrein.  Stjórnmálamenn voru búnir að halda "þeim dauðu" á lífi svo árum skipti á styrkjum frá ríkinu sem hurfu eins og dögg fyrir sólu um leið og þeim hafði verið úthlutað.  Það var allan tímann vitað að þetta yrði mjög sársaukafullt fyrir sum þeirra bæjarfélaga sem misstu kvóta. 

Ef það á að taka kvótann af þeim bæjarfélögum sem nú eiga kvóta og flytja hann til hinna (heildarmagnið eykst ekki, það er einungis flutt til) þá mun fólk einfaldlega missa vinnuna í byggðarlagi A og aðrir fá vinnu í byggðarlagi B.

3. Það er mjög mikilvægt að afnema leiguliðakerfið.  Hins vegar er ekki skynsamlegt að taka kvótann af þeim sem eru á fullu í útgerð og flytja hann til þeirra sem eru stjórnvöldum þóknanlegir.

Finnist fólki núverandi kerfi óréttlátt þá verður úr hinu eitthvað enn verra þegar stjórnmálamennirnir fara að velja hverjir lifa og hverjir deyja í greininni.


mbl.is Lýsa vilja til að endurskoða fiskveiðistjórnunarlögin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband