Hvað er að gerast í raun og veru

Harpa vinkona mín, ljósmóðir, skrifaði athugasemd á síðustu færslu mína um ljósmóðurmálin og sagðist þar undrast framgöngu mína í umræðunni sem henni hefur líklega þótt fremur kaldhranaleg.  Ég skil það viðhorf.

Stór hluti míns starfs undanfarin fimm ár hefur verið þátttaka í kjarasamningum og kjarasamningaviðræðum frá hlið atvinnurekandans.  Það hefur verið mjög fræðandi og gefið manni innsýn inn í allt annað en er alltaf í umræðunni þegar svona deilur koma upp.  Heildarmyndina sem er það sem stýrir öllu dæminu af hálfu atvinnurekandans.

Fyrst vil ég segja að ég styð auðvitað kröfur ljósmæðra heilshugar.   Veit ekki nákvæmlega hvað þær eru með í laun en geri ráð fyrir að það sé öðru hverju megin við 250-300 þúsund á mánuði fyrir dagvinnu.  Slík laun eru að sjálfsögðu út í hött fyrir sérfræðing með ígildi mastersprófs.

Ljósmæður hafa spilað þetta vel.  Þær hafa verið á jákvæðu nótunum, þéttar fyrir án þess þó að vera í neikvæða gírnum.  Þær hafa því almenningsálitið með sér og það er það mikilvægasta sem þær eiga.

Hvað er vandamálið frá sjónarhóli ríkisins?

Sjaldan veldur einn þá tveir deila.  Þegar kjarasamningur er gerður er hann sameiginlegt verkefni beggja samningsaðila.  Hvorugur samningsaðilinn getur farið með hvaða samning sem er í sitt bakland.  Báðir verða því að leita að lausn sem sker báða úr snörunni.  Hvorugur fær allt sem hann vill.

Hvað ríkið snertir er ekki mikil pressa til að semja fyrr en kemur að stóra verkfallinu seinna í mánuðinum.  Því geri ég ekki ráð fyrir að lokaspilunum verði spilað út fyrr en þá nema þá hugsanlega að slíkt geti lokað samningunum.  Þangað til spái ég því að staðan muni hanga eins og hún hefur gert undanfarna daga og vikur.

Ég er auðvitað ekki í samninganefnd ríkisins og því eru eftirfarandi vangavelltur einungis það sem ég held að sé að gerast í þeirra herbúðum. Ég efast hins vegar um að ég hafi mjög rangt fyrir mér.  Allir vita hvað er að gerast hjá Ljósmæðrum þar sem þeirra hlið er í öllum fjölmiðlum.

Vandamálið er að það eru fullt af öðrum hópum með "út í hött" laun og endalaust hægt að deila um það hver er mest út í hött, aðeins meira út í hött eða aðeins minna út í hött.  Dæmi um það eru t.d. láglaunastéttir í umönnunarstörfum sem hafa vissulega ekki þá menntun sem ljósmæður hafa en launin þeirra eru engu að síður fáránleg.  Það sama má t.d. segja um almenna verkamenn sem eru með langt innan við 200 þúsund í dagvinnulaun, lögreglumenn, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, kennara og fleiri hópa sem hafa verið áberandi í umræðunni.  Grunnskólakennarar, með Ólaf Loftsson í broddi fylkingar, sömdu skynsamlega við sveitarfélögin núna á síðasta ári sem virðist lítið hafa flætt yfir í aðra kjarasamninga en þar var um að ræða mikla leiðréttingu á þeirra kjörum þótt auðvitað megi alltaf gera betur.

Í dag tel ég, horfandi ég þetta utanfrá, er staðan þessi frá sjónarhóli ríkisins:

  1. 15% verðbólga sem veldur því að launahækkanir hópa eru ekki endilega ávísun á aukinn kaupmátt.  Kaupmáttur er markmiðið - ekki talan á launaseðlinum.
  2. Flestir BHM hópar sömdu á árinu um 20 þúsund króna hækkun til 31. mars 2009 sem er líklega 5-8% launahækkun fyrir flesta þessa hópa.  Samningar allra þessara félaga eru því lausir á fyrri hluta árs 2009, þ.e. innan 6-9 mánaða.
  3. Forsendur kjarasamninga sem ASÍ og Samtök atvinnulífsins gerðu í febrúar 2008 eru brostnar.  Það þýðir að 1. mars næstkomandi þarf að semja aftur og heyrist mér ASÍ og SA vera lögð af stað í nýja þjóðarsátt til að reyna að slá á verðbólguna og tryggja kaupmátt.  Þegar samningarnir við BHM og fleiri renna út 31. mars verður örugglega reynt að koma þeim inn í sama mót og samninga SA og ASÍ, þ.e. svipaða hækkun og almenni markaðurinn og samningstími út árið 2010 eða þar um bil.

Þegar einn hópur óskar eftir 25% hækkun í þessu umhverfi er úr vöndu að ráða.  Það er ekki hægt að segja bara já og amen því það mun hafa bein áhrif á kröfur annarra hópa sem allir eru með lausa samninga á næstu mánuðum.  Slíkt mun síðan hafa áhrif á verðbólguna sem mun eyðileggja alla hækkunina og allir tapa.

Hvað er þá til ráða?

Ríkið er því milli steins og sleggju.  Það má ekki gera svona dýra samninga fyrr en hin félögin eru búin að semja árið 2009.  Það þarf því að spila einhvern millileik þangað til.  Dæmi um velheppnaða slíka aðgerð eru ofangreindir samningar Félags grunnskólakennara síðastliðið vor.  Þeir voru seinni hluti slíks millileiks.  Samningar virka þannig að hvorugur aðilinn fær allt sem hann vill.  Því ættu ljósmæður að samþykkja einhvern millileik í krónum talið en leggja frekar áherslu á hvað gerist næstu 1-2 árin og skera ríkið þannig úr snörunni því það getur ekki hreyft sig með öll hin félögin í startholunum næstu mánuði.

Ljósmæður gætu t.d. sætt sig við lægri hækkun en 25%.  Slík hækkun helst þyrfti að koma þeim upp fyrir hjúkrunarfræðing með BS próf.  Síðan yrði farið í einhverja svipaða vinnu og Félag grunnskólakennara fór í með sínum viðsemjanda þar sem hreinsað var til í ýmsu sem þeim þótti ástæða til.  Samningur myndi gilda þangað til eftir að aðrir samningar hópa við ríkið renna út, í síðasta lagi út árið 2009 með einhverjum frekari hækkunum á því ári.  Markmiðið væri að komast aftan við hina hópana sem eru með opna samninga árið 2009 og vera síðastar í röðinni.  Þá væri hægt að semja við þær aftur í janúar 2010 einhverja svipaða leiðréttingarsamninga og FG gerði því þá væri heilt ár í næstu samninga annarra hópa (SA og ASÍ sömdu út árið 2010 og mér finnst líklegt að samningar ríkisins sem gerðir verða árið 2009 verða a.m.k. til þess tíma).

Þetta gæti gert það að verkum að laun ljósmæðra leiðréttist töluvert á næstu 2 árum.  Í raunveruleikanum taka svona hlutir einfaldlega þann tíma og þá sérstaklega við aðstæður eins og nú þegar allir samningar eru lausir á næstu mánuðum og því mjög erfitt að gera samninga við einstök félög á öðrum grunni en fyrir heildina.

Menntun ljósmæðra

Töluverð umræða hefur verið um það í bloggheimum hvort menntun ljósmæðra sé of mikil, þ.e. hvort þær séu "overqualified" til starfans og það hvort full mikil "verðbólga" hafi hlaupið í menntunarkröfurnar undanfarin ár.

Ég er algerlega ósammála því.  Ég eignaðist barn á síðasta ári og fannst aðdáunarvert hvað allt ferlið í kringum meðgönguna, fæðinguna, sængurleguna og eftirfylgni eftir fæðingu er vel úr garði gert og faglegt.  Þetta ferli allt er leitt af ljósmæðrum víðs vegar í kerfinu sem komu mér fyrir sjónir sem afar faglegur hópur og mjög á tánum fyrir því sem var að gerast í þeirra fræðigrein. 

Fæðingin sjálf er afar tæknilega flókin aðgerð þar sem mjög margt getur farið öðruvísi en áætlað er.  Tölurnar sýna að tíðni ungbarnadauða á Íslandi er ein sú allra lægsta í heiminum, ef ekki sú lægsta.  Við fæðinguna eru bæði móðirin og barnið í beinni lífshættu enda hafa milljónir kvenna og barna látist við þessar aðstæður.  Þarna er ekkert hægt að fresta málinu og koma aftur í næstu viku.  Því þarf að taka ákvarðanir fljótt og fumlaust en einnig að tryggja að aðdragandi fæðingarinnar sé eins góður og hægt er til að tryggja að móðir og barn séu í besta mögulega formi fyrir stóra verkefnið.  Þetta fannst mér ljósmæðurnar leysa aðdáunarlega vel úr hendi.  Við áttum samskipti við fjölda ljósmæðra og allar voru þær afar færar í mannlegum samskiptum (sem læknisfræðilega skiptir mjög miklu máli við þessar aðstæður) auk þess sem svör þeirra voru mjög fagleg sem skapaði mikla öryggistilfinningu hjá okkur foreldrunum.  Slík öryggistilfinning veldur hugarró sem aftur dregur úr líkum á að fæðingin fari illa.

Starf ljósmæðra kallar klárlega á menntunarstig á meistarastigi og því hlýtur að vera markmiðið að þeim séu greidd samkeppnishæf laun m.t.t. menntunar.  Ég er vaxinn upp úr því að nota orðið "sanngjörn" um laun því það er einfaldlega of tilfinningaþrungið til að virka sem lýsingarorð.  Samkeppnishæf laun eru laun sem tryggja að ljósmæðrastarfið sé samkeppnishæft í launum og takist að halda í hæft fólk.  Sú staða er markmiðið.

Uppsagnir - Lögsókn

Það hvort uppsagnir ljósmæðra hafi verið löglegar eða ekki hefur ekkert með réttmæti krafna þeirra að gera heldur er algerlega aðskilið lögfræðilegt mál.  Það getur hins vegar gert það að verkum að uppsagnirnar verða dæmdar ólöglegar (fjármálaráðuneytið telur sig hafa undir höndum gögn sem segja að svo sé) sem ég held að þýði að þær þurfi segja upp aftur sem gefur ríkinu gálgafrest.  Kannski það sé skammtímamarkmið Árna og félaga með lögsókninni.  Að tryggja starfsemi tengda fæðingum sem kemur þó að litlum notum ef ljósmæðurnar verða allar farnar í verkfall.


mbl.is Árangurslaus sáttafundur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fallega fólkið þarf líka að fara eftir leikreglunum

Þótt ljósmæður sé yndislegasta stétt í heimi þá þurfa þær að fara eftir leikreglunum eins og aðrir.  Það er algerlega aðskilið mál við það hvort kröfur þeirra séu réttlætanlegar eða ekki.
mbl.is Gögn sögð sýna samráð um uppsagnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litið yfir völlinn

Skrifaði eftirfarandi athugasemd á Eyjunni

1. Á síðustu öld voru verulega skarpari skil milli fjórflokkanna enda skipti það miklu máli fyrir þjóðina hvaða leiðir yrðu ofan á. Núna, þegar við mælumst í efstu sætum lífgæðalistan SÞ er í raun búið að leggja hugmyndafræðilínurnar í íslensku þjóðfélagi. Flestir eru nokkurn veginn sammála um það hvað eigi að einkavæða og hvað ekki og eftirleikurinn í raun meira "tæknileg útfærsla" en "hugmyndafræðileg stefnumótun" (s.b. sjúkratryggingafrumvarpið sem snýst um kaupendahlutverk ríkisins en ekki einkavæðingu).

2. Þetta gerir það að verkum að Framsóknarflokkurinn (eftir að hann kom á mölina), Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylking hafa í flestum málum sömu áherslur, a.m.k. á kvarðanum hægri/vinstri. Síðan eru einstök mál eins og Evrópumálin sem allir vita að skiptast þvert á flokka og því er varla hægt að nota þau til að greina á milli þeirra, nema einna helst í tilfelli Samfylkingar.

3. Þetta hefur meðal annars valdið því að Framsóknarflokkurinn er nánast horfinn. "Miðjan" hans er orðin miðja allra. Samfylkingin nær inn að miðju frá vinstri og Sjálfstæðisflokkurinn frá hægri sem skilur ekki eftir neitt pláss fyrir Framsókn, enga sérstöðu. Þá standa eftir Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylking sem báðir starfa á miðjunni þar sem hægri mennirnir í Sjálfstæðisflokknum og vinstri mennirnir í Samfylkingu fá litlu að ráða. Engum dettur í hug að fara í samstarf með VG enda þeir varla taldir stjórntækir þar sem þeir eru ekki á miðjunni eins og hinir flokkarnir og því ávísun á "vesen". Það hefur yfirleitt verið sagt um sveitarstjórnarmálin að þau séu meira praktísk en hugmyndafræðileg. Með bættum lífskjörum eru landsmálin að þróast í sömu átt.

4. Sjálfstæðismenn í landsmálunum geta núna þakkað fyrir að hafa dregið Samfylkinguna út á ísinn með sér. Annars yrðu þeir einir um að vera vondi karlinn í næstu kosningum.

5. Í borginni fékk Samfylkingin það eftirsóknarverða hlutverk að fá 100 daga til að lofa öllu fögru en þurfa ekki að standa við neitt (þar sem hún fékk ekki nægilega langan tíma til þess). En vitið til, kjörtímabilið er rétt svo hálfnað og ég einfaldlega stórefast um að í næstu kosningum verði kosið um eitthvað sem gerðist fyrir tveimur til þremur árum. Ég spái því að Sjálfstæðismenn og Framsókn muni halda saman úr kjörtímabilið og að Sjálfstæðismenn muni ná að kroppa til baka megnið af sínu hefðbundna fylgi. Tvö ár eru mjög langur tími í pólitík.


mbl.is Uppgjör Óla Björns við Sjálfstæðisflokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta það sem koma skal á Vestfjörðum

Er þetta það sem koma skal á Vestfjörðum þegar olíuhreinsunarstöðin verður komin lengst inni í mjóan fjörð og olíuskip, af margfaldri stærð miðað við þetta, sigla þar inn og út fjörðinn?  Mikil mildi að ekki fór verr í kvöld.


mbl.is Olíuskip strandaði á Ísafirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með samkeppniseftirlit? Hvernig urðu þeir svona stórir???

Hvernig stendur á því að þetta getur gerst á markaði með jafn strangt samkeppniseftirlit og þeim bandaríska?  Ég sá á BBC áðan að Freddie Mac og Fannie Mae eiga samanlagt um 80% af húsnæðislánabréfum í Bandaríkjunum.  Maður hefði haldið að þetta hefði verið stöðvað fyrir löngu síðan, ef ekki af samkeppniseftirlitinu þá af bandaríska fjármálaeftirlitinu.
mbl.is Bandaríska ríkið yfirtekur fasteignalánasjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Segir ekkert um niðurstöðu hugsanlegra samningaviðræðna

1. Þetta segir vissulega hvaða augum er litið á þetta mál enda eðlilegt þar sem hann er einfaldlega að segja að svona séu reglurnar.  Það var ekkert sem við vissum ekki fyrir.  Það hvort við getum samið okkur fram hjá þeim ef við leggjum fram formlegt erindi OG uppfyllum þær hagfræðilegu kröfur sem gerðar eru til umsóknarríkja er allt annað mál.  Það er hins vegar alveg ljóst að það væri þungur róður enda verið að fara á svig við þær reglur sem í gildi eru.

2. Ef við værum búin að ná þeim hagstjórnarárangri að vera með verðbólgu,  vexti o.fl. sem uppfylli skilyrði um Evruinngöngu þá væri vandamálið úr sögunni og í raun engin ástæða til inngöngu.

3. Ísland og Noregur skoruðu hæst á lista yfir lífsgæði í heiminum.  Er tilviljun að þau eru bæði utan ESB og því sjálfstæðari en hin Evrópuríkin?  Er einhver ástæða fyrir þau að slást í hópinn með ríkjum sem öll eru fyrir neðan þau á listanum?  Af hverju skyldu ríkin í efstu deild sækjast eftir því að spila í neðri deildinni? 


mbl.is ESB-aðild forsenda evruupptöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grundvallarmistök - Aflátsbréf fyrir ríkið og ávísun á 10 ára málaferli

Það eru grundvallarmistök að ætla að greiða þessum einstaklingum miskabætur í peningum. 

  1. Í fyrsta lagi rýrir það möguleikana á því að rannsaka fleiri heimili því nú verður sá verðlaunaður með peningum sem segir verstu söguna.  Slíkt getur hæglega orðið til þess að mannorð saklausra starfsmanna þessara heimila (sem eru auðvitað flestir) verði tekin af lífi.
  2. Í öðru lagi er útilokað að meta til fjár þær hörmungar sem þessir menn urðu fyrir og ber fréttin þess merki þar sem annar aðilinn er að tala um hálfa milljón en hinn að tala um 20 milljónir.  Þetta getur ekki annað en endað með margra ára lögfræðideilum sem eru ekki þau lífsgæði sem við viljum veita þessu fólki.  Margir þessir einstaklingar ekki í nokkru formi til að standa í lögfræðideilum í mörg ár og mörgum mundi það ekki gera neitt gott að fá fullt af peningum upp í hendurnar án aðstoðar.
  3. Það sem ríkið á að gera er að skipa félagsráðgjafa sem væri n.k. "þjónustufulltrúi" ríkisins fyrir hvern og einn og hefði það hlutverk að "klæðskerasauma" lausnir sem leggðu grunn að betri lífsgæðum viðkomandi í samvinnu við hann og fjölskyldu hans.  Hann hefði rúmar heimildir til hvers lags sálfræðiaðstoðar viðkomandi fyrrum vistmanns, fjölskyldu hans, barna og annarra sem að málum koma, aðstoðar í húsnæðismálum, atvinnumálum, heilsufarsmálum svo eitthvað sé nefnt.   Fengi einfaldlega það verkefni að styðja við bakið á viðkomandi á hvern þann hátt sem hægt væri í því skyni að gera það sem eftir er af lífi hans eins gott og möguleiki er og koma fólkinu á beinu brautina, eða eins beina braut og því er unnt.  Þetta yrði örugglega miklu dýrari lausn gagnvart sumum einstaklingunum en ódýrari gagnvart öðrum þegar upp væri staðið en hún myndi líka skila miklu meiri lífsgæðum til viðkomandi einstaklinga.  Til þess er leikurinn gerður - það er það sem við skuldum þeim en ekki peningar.

mbl.is Telja bætur of lágar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

8 konur og 6 karlar!

Ánægjulegt að við skulum eiga svona mikið af kröftugum konum.  Heilbrigðiskerfið á auðvitað helling af mjög hæfum og öflugum konum en það þarf mikið sjálfstraust, áræði og kraft til að sækja um forstjóra Landspítalans, stærsta og flóknasta fyrirtæki landsins, að viðbættri hæfni og menntun.  Það áræði og sjálfstraust hefur stundum skort þrátt fyrir að hæfnin og menntunin væri til staðar.

Glæsilegt!


mbl.is Hulda forstjóri Landspítala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flytjum Keflavíkurflugvöll í bæinn - Sameinum Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvöll á Löngusker

Það er búið að velta flugvallarmálinu í kerfinu í meira en áratug því enginn kemur með lausnir sem virka í raun. Allir segja “Flugvöllinn burt” en enginn segir “hvert”. Því er væntanlega kominn tími til að hugsa út fyrir kassann. Þetta má kosta töluvert því verið er að horfa til 50-100 ára og miklir hagsmunir í húfi.

Möguleg lausn gæti t.d. byggst á eftirfarandi þáttum
1. Keflavíkurflugvöllur og Reykjavíkurflugvöllur yrðu sameinaðir á Lönguskerjum. Vandamálið við flugvöll þar er selta en það er viðfangsefni sem við látum í hendur á verkfræðingunum að leysa.
2. Keflavíkurflugvöll yrði seldur einkaaðilum sem gætu t.d. komið þarna upp fríhafnarsvæði milli Evrópu, Ameríku og Asíu (við erum að tala um eftir 5-10 ár - þá er talið líklegt að hægt verði að fljúga yfir pólinn til Asíu). Við þá yrði einnig samið um að hægt væri að nýta Keflavíkurflugvöll sem varaflugvöll.

Með því leystist eftirfarandi:

  • Hægt yrði að byggja í Vatnsmýrinni.
  • Haldið yrði í veðurskilyrði Reykjavíkurflugvallar að mestu.
  • Varaflugvöllur væri til staðar (sjá að neðan).
  • Stutt yrði á flugvöllinn úr höfuðstaðnum.
  • Stutt yrði af flugvellinum á Landspítalann vegna sívaxandi sjúkraflugs.
  • Eitthvað af kostnaðinum við uppbyggingu Lönguskerja fengist til baka með sölu Keflavíkurflugvallar og þeirri hagræðingu sem fælist í því að reka einn flugvöll en ekki tvo eins og við gerum í dag.
  • Dregið yrði úr þjóðhagslegum kostnaði tengdum millilandaflugi sem í dag endurspeglast í því að allir sem fljúga til og frá Keflavík (2,2 milljónir farþega á ári) þurfa að keyra alla leið þangað og þaðan sem er mjög dýrt, bæði með tilliti til fjárhagslegra þátta og umhverfislegra.

Er þetta raunhæfur kostur? Sláum hann a.m.k. ekki út af borðinu fyrr en búið er að meta hann til fulls.

 

Aðrir kostir

Hólmsheiði fráleitur kostur
Hólmsheiði er auðvitað algerlega fráleitur kostur flugrekstrarlega séð og umhverfislega (v/vatnsbóla)því hún er í 120 metra hæð yfir sjávarmáli, þokubakki liggur mjög oft yfir Hólmsheiðinni auk þess sem hún er næsta hæð við helsta vatnsból Reykvíkinga og því væri það fráleit hugmynd að koma þar fyrir starfsemi eins og flugvelli.

Innanlandsflugið flutt til Keflavíkur?
Mér skilst af flugmönnum að það sé oft mjög erfitt fyrir litlar vélar að lenda Í Keflavík og að verði flugvöllurinn fluttur þangað muni flug falla niður verulega fleiri daga ársins en nú er.

Að öðru leyti væri hægt að leysa samgönguvandann með lest sem færi þessa leið á 300 km hraða og væri 10 mínútur á milli. Þar með myndi vegalengdin ekki skipta máli. Hægt væri að setja hana upp fyrir gróðan af Vatnsmýrinni.

Þá er hins vegar óleyst vandamál varðandi varaflugvöll fyrir millilandaflugið. Reykjavíkurflugvöllur er varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll. Ef hann dettur út þá þarf að tryggja að annar varaflugvöllur sé til staðar svo flugvélar þurfi ekki að bera bensín til að lenda á varaflugvelli í Skotlandi ef eitthvað klikkar í Keflavík. Það væri ekki til að lækka verðið á farmiðunum okkar.  Mögulega væri hægt að byggja upp varaflugvöll á Suðurlandsundirlendinu einhvers staðar en slíkt væri mjög dýrt miðað við aðra notkun vallarins.


Er einhver til að vinna á þessum stofnunum?

Hvar ætlar Gulli að finna einhverja til að vinna á þessum stofnunum?
mbl.is 400 ný hjúkrunarrými
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband