17.3.2009 | 01:07
Sérstaða Íslands - Af hverju er Ísland í verri stöðu nú en önnur ríki?
Mér finnst almennt vanta í umræðuna að greint sé á milli eftirfarandi þriggja þátta þegar skýra á slæma stöðu Íslands SAMANBORIÐ VIÐ þau ríki sem við berum okkur almennt saman:
1. Ástæðu bankahrunsins á Íslandi
2. Ástæðu kreppunnar á Íslandi
3. Því hvort okkur líkar vel eða illa það sem í gangi var hjá bönkunum og tilteknum aðilum í viðskiptalífinu, bæði innanlands og utan.
1. ÁSTÆÐA BANKAHRUNSINS - SÉRSTAÐA ÍSLANDS
Af hverju hrundi íslenska bankakerfið en ekki bankakerfi annarra landa?
Svar: Vegna þess að þau voru gripin í fallinu.
Ég bý í Skotlandi í vetur og hér fór ríkisstjórnin og Englandsbanki inn í alla helstu bankana, þ.m.t. Royal Bank of Scotland sem fyrir hrun var stærsti banki heims með tilliti til eigna, þ.e. hann átti mestar eignir af öllum bönkum í heimi. Þessi banki hefur verið starfandi frá því á 16. eða 17. öld. Ástæðan fyrir því að hann hrundi ekki eins og íslensku bankarnir var sú að hann var gripinn í fallinu. RSB var annar stóri skoski bankinn.
Ástæðan fyrir því að hinn stóri skoski bankinn hrundi ekki, "Halifax - Bank of Scotland" var sú að ríkið tók hann yfir og sameinaði öðrum enskum banka (sem var svolítið eins og að rífa hjartað úr Skotunum) Lloyds TSB sem er einmitt þriðji mest áberandi bankinn hér í Edinborg. Lloyds TSB fékk risalán frá ríkinu en ríkið þurfti ekki að fara inn í hann sem hluthafi. Þrír stærstu bankarnir og fleiri til voru því ALLIR GRIPNIR Í FALLINU.
Þetta var hægt vegna þess að seðlabankinn var stærri en bankarnir. Seðlabankinn gat farið þarna inn og tekið bankana yfir með húð og hári. Á Íslandi voru bankarnir orðnir 12 sinnum stærri en seðlabankinn og því átti hann enga möguleika á að grípa þá í fallinu.
Ef sama hefði verið upp á teningnum í Skotlandi hefðu allir helstu bankar fallið á sama hátt og á Íslandi. Sambærileg dæmi er hægt að taka út um allan heim.
Ástæðan er sú að ríkisstjórnin gætti þess ekki að stöðva vöxt bankanna EÐA stækka seðlabankann þannig að STÆRÐARHLUTFÖLLIN milli bankanna og seðlabankans væru þannig að hann gæti gripið þá ef eitthvað kæmi fyrir. Þetta er ástæða þess að bankakerfið hrundi á Íslandi en bankakerfi erlendis fóru almennt ekki sömu leið. Þau voru gripin en ekki það íslenska.
2. EN KREPPAN...?
Hvað olli dýpri kreppu á Íslandi en víðast hvar annars staðar?
Svar: Bankarnir hrundu en voru gripnir annars staðar og efnahagslífið þoldi ekki bankahrunið Í VIÐBÓT VIÐ ALLT HITT sem á undan hafði gengið.
Kreppan er afleiðing af bankahruninu sem og mörgu öðru sem á undan kom. Löngu áður en bankarnir hrundu var farið að bera á vandræðum varðandi gengi, verðbólgu, óeðlilegum efnahagssveiflum, gríðarlegri offjárfestingu í byggingariðnaði og víðar, gríðarlegri skuldsetningu fyrirtækja og einstaklinga (þó ekki allra) o.s.frv. Það högg sem efnahagslífið fékk þegar bankarnir hrundu í jörðina var því náðarhöggið eftir langt vitleysistímabil í efnahagsmálum, efnahagslífið þoldi ekki hrunið Í VIÐBÓT VIÐ ALLT HITT sem á undan hafði gengið.
3. ER VERRI STAÐA ÍSLANDS EN ANNARRA RÍKJA ÞÁ EKKI ÍSLENSKA VIÐSKIPTALÍFINU OG BANKAMÖNNUNUM AÐ KENNA?
Svar: Lykilatriðið er að sú vitleysa sem í gangi var í íslensku bönkunum og meðal hinna svokölluðu "útrásarvíkinga" SKÝRIR EKKI SÉRSTÖÐU ÍSLANDS í heiminum í dag eins og margir vilja vera láta. Þessi vitleysa var í gangi um allan heim.
RÉTTÆTIR ÞAÐ GJÖRÐIR BANKANNA?
Því meira sem kemur upp á yfirborðið af því sem fór fram í samskiptum bankanna við eigendur sína þeim mun ófaglegar hljómar það. Slíkt ber að sjálfsögðu að rannsaka til að gæta þess að réttlæti sé fullnægt samkvæmt lögum en einnig til að læra af því þannig að hægt sé að byggja regluverk upp þannig í framtíðinni að sóðaskapurinn, ábyrgðarleysið og vitleysan endurtaki sig ekki. Þetta skýrir hins vegar ekki sérstöðu Íslands. Þetta var í gangi um allan heim.
Lítil heimt af lánum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.3.2009 | 12:29
Oft bilur hæst í tómri tunnu
Fjölmargir standa vel | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.3.2009 | 12:25
Alls ekki bótagreiðslur
Ég er alfarið á móti því að farið verði í það vonlausa verkefni að reyna að reikna út bótagreiðslur til þessara aðila. Að ríkið skrifi undir einhvers konar aflátsbréf upp á einhverjar milljónir fyrir að hafa eyðilagt stóran hluta af ævi þessara manna. Hvernig í ósköpunum á að verðleggja ævi fólks?
Þvert á móti á ríkið að stofna teymi fagfólks með víðar heimildir sem fari yfir öll mál þessara manna og fjölskyldna þeirra og bjóði þeim alla þá þjónustu sem hægt er að bjóða mönnum í þessari stöðu til eins langs tíma og þörf er á, jafnvel út ævina.
Það getur vel verið að það verði miklu dýrara en að henda í þá peningabúntum og segja bless en það er slík aðstoð sem við skuldum þeim. Stór hluti þessara manna mun ekki öðlast aukna hamingju þótt einhverjar upphæðir verði lagðar inn á reikninginn hjá þeim enda hvernig verðleggur maður ævi fólks?
Til viðbótar var því haldið fram á sínum tíma að það ætti að halda áfram með rannsóknina og taka fyrir önnur vistheimili. Það er vægast sagt stórhættulegt ef gefin er út sú yfirlýsing fyrirfram að sá einstaklingur sem segi "verstu" söguna fái mest "verðlaunin" í formi peningaupphæðar. Slíkt getur hæglega freistað einhvers, sá hinn sami farið í að ásaka saklaust fólk og taka af þeim æruna.
Það er mjög mikilvægt að þjóðin taki þessa menn upp á sína arma og aðstoði þá og fjölskyldur þeirra af öllum mætti og allri þeirri væntumþyggju sem við eigum. Aflátsgreiðslur í formi peninga í vasann eru hins vegar ekki rétta leiðin.
Afsökunarbeiðni vegna Breiðavíkur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Er enginn að tala okkur máli í þessum hvalveiðimálum öllum?
Ábyrgar sjálfbærar veiðar
Við erum að reka ábyrgar og sjálfbærar veiðar á tegundum sem synda um Norður-Atlantshafið í tugþúsundatali. Rökin gegn hvalveiðum eru því ekki þau að þær séu ekki sjálfbærar eða ábyrgar.
Tilfinningarök
Einhverjir eru búnir að bíta það í sig að hvalurinn eigi að vera á einhverjum öðrum stalli en önnur dýr, n.k. heilgara kýr eins og á Indlandi, og því megi ekki "skerða hár á höfði hans". Vegur þar stærð þeirra og mikilfengleiki þungt. Það er auðvitað mjög erfitt að ætla að bregðast við slíkum málflutningi. Engu að síður er mikilvægt að það sé gert. Hvalurinn er hvorki rétthærri né réttlægri en önnur dýr á plánetunni og því er eðlilegt að hann sé nýttur svo lengi sem það er gert á ábyrgan og sjálfbæran hátt eins og með önnur dýr.
Aðgerðir
Nú þyrfti sendiráðið í Þýskalandi, Arthúr Björgvin og fleiri snillingar að leggjast yfir það hvernig hægt sé að koma okkar sjónarmiðum að í þýskum fjölmiðlum. Það er ekki auðvelt og gegn töluverðri öldu að fara en engu að síður mjög mikilvægt.
Hvað með þorskinn?
Hvað gerist þegar einhverjum dettur í hug að setja fram ofangreind tilfinningarök um þorskinn? Eigum við þá að lufsast niður líka og segja "Allt í lagi"? Kosturinn við þessa hvalaumræðu er sá að það er a.m.k. ekki verið að tala um þorskinn á meðan.
Sniðganga íslenskar vörur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.2.2009 | 14:55
Óeðlileg kynjahlutföll í stjórn Kaupþings
Aðeins konur í stjórn Nýja Kaupþings | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.2.2009 | 22:34
Gott hjá Höskuldi
Það var gott hjá Höskuldi að bíða eftir þessari skýrslu og láta ekki framkvæmdavaldið vaða yfir þingmenn á skítugum skónum. Þótt skýrslan virðist nú ekki hafa skilað miklum breytingum inn í frumvarpið þá skilaði hún alla vega þessu.
Annað sem þetta skilaði var að Jóhanna sýndi sitt rétta eðli gagnvart þinginu. Nú þegar hún er orðin leiðtogi framkvæmdavaldsins þá er hún alveg jafn gráðug í að valta yfir þingið eins og fyrirrennarar hennar í embætti.
Peningastefnunefnd skal gefa út viðvörun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.2.2009 | 21:03
Afar sátt við Cbeebies
Við búum í Edinborg í Skotlandi í vetur og horfum á hverju kvöldi á Bedtime Hour sem Cerrie Burnell og samstarfsmaður hennar stýra. Um er að ræða þátt milli klukkan 18 og 19 á kvöldin áður en stöðin hættir útsendingum klukkan 19. Þarna eru teiknimyndir í rólegri kantinum og síðan koma stjórnendurnir tveir fram á milli þátta og gera eitthvað sem oft tengist því að undirbúa sig fyrir háttinn.
Það vakti athygli okkar þegar núverandi stjórnendur byrjuðu með þáttinn um áramótin síðustu. Ein ástæða þess var einmitt sú að leikkonan er einhent. Hún er með stuttan "stubb" á hægri hendi. Samt gerir hún allt sem hún þarf að gera, brosir og leikur við krakkana eins og hressar stelpur í hennar stöðu gera.
Við höfðum sérstaklega orð á því hvað okkur fannst það virðingarvert af BBC sem rekur barnastöðina CBeebies, að vera með einhentan þáttastjórnanda. Slíkt er klárlega til þess fallið að kenna krökkunum að einhent fólk er til, það er virkt í þjóðfélaginu og jafneðlilegt og allir aðrir. Til þess þurfa foreldrarnir auðvitað að ræða við börnin sín en það virðist hafa klikkað hjá einhverjum ef þessi frétt á við rök að styðjast.
Ósátt við einhenta sjónvarpskonu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.2.2009 | 23:59
Skjótum og njótum
Það á bæði að skoða og skjóta. Einnig gæti það klárlega verið spennandi kostur fyrir ferðaþjónustuna að bjóða upp á hvalveiðiferðir. Örugglega mjög spennandi dæmi.
Horfum á þetta í aðeins víðara samhengi. Það sem er að gerast er að ákveðinn hópur fólks er að segja að við megum ekki nýta tiltekna náttúruauðlind án þess að fyrir því liggi nokkur vísindaleg rök. Þetta gefur vel af sér fyrir viðkomandi aðila sem bjóða fólki að ættleiða hvali og greiða háar upphæðir til styrktar þeim sjálfum og "baráttunni". Dæmið veltir milljónum.
Einu vísindalegu rökin eru sú að tilteknar hvalategundir hafa verið ofveiddar við vesturströnd Ameríku og eru því á lista yfir dýr í útrýmingarhættu í Bandaríkjunum. Rannsóknir sýna að stofnarnir í Norður-Atlantshafinu blandast ekki á nokkurn hátt stofnunum í Austur-Kyrrahafi. Dýr fara ekki á milli. Því hefur verndun í Norður-Atlantshafi þar sem nóg er af dýrunum ENGIN áhrif á stofnin í Vestur-Kyrrahafi. Þvert á móti er mikilvægt að fjölgun hvala á þessu svæði verði hæfileg til að það hafi ekki neikvæð áhrif á aðra fiskistofna. Það eru því engin vísindaleg rök fyrir því að veiða ekki hvali.
Hvað kemur næst? Verða fleiri auglýsingaherferðir settar á stofn varðandi aðrar fiskitegundir? Þegar Bandaríkjamenn verða búnir að ofveiða aðrar tegundir í Vestur-Kyrrahafi munu þeir þá koma og banna okkur að veiða þorsk og ýsu? Þegar Bretar verðar búnir að ofveiða í Norðursjó koma þá ekki fram auglýsingaherferðir í Bretlandi um að borða ekki fisk og veiða ekki fisk? Það virkar ekki í auglýsingaherferðum að fókusa á sérstakar tegundir eða svæði. Það mun aldrei vera talað um að borða ekki fisk af tiltekinni gerð af tilteknu svæði í Norðursjó. Stórar fyrirsagnir og skýrar er það sem kemst í gegn. Það er örugglega markaður fyrir það að kafa með þorski eða ýsu. Ætlum við þá að hætta að veiða fisk?
Við eigum að vera til fyrirmyndar í ábyrgri nýtingu á okkar náttúruafurðum. Það þýðir til dæmis að kreppa á landi leiðir ekki til aukinnar nýtingar í sjó. Aukin nýting í sjó getur aðeins orðið til vegna þess að aðstæður í sjó hafa breyst - ekki aðstæður á landi. Við eigum að kynna þetta, vera samkvæm sjálfum okkur og standa í lappirnar hvað þetta snertir til mjög langs tíma. Auglýsingaherferðir sem ganga út á að græða á fólki sem ekki veit betur og hafa ekkert vísindalegt bakland eiga ekki að fá að stjórna nýtingu á okkar náttúruauðlindum. Ef við stöndum ekki í lappirnar í hvalveiðimálunum þá verða fleiri tegundir komnar á dagskrá innan fárra ára eða áratuga.
Ákvörðun um hvalveiðar stendur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.1.2009 | 15:26
Hárréttur tími fyrir stóriðjuframkvæmd á heilbrigðissviði
Til aukinnar arðsemi þurfa að reiknast afleidd áhrif af þessari "stóriðjuframkvæmd í heilbrigðisþjónustu" á höfuðborgarsvæðinu nú í kreppunni. Stóriðjuframkvæmdir þurfa nefnilega ekki alltaf að heita álver.
Þetta myndi af öllum líkindum hreinsa atvinnuleysisskrá af hönnuðum og arkitektum og öðrum sem koma að byggingarframkvæmdum sem hafa farið mjög illa út úr núverandi árferði og seinna í ferlinu af iðnaðarmönnum sem og mörgum öðrum hópum. Það að losna við viðkomandi af atvinnuleysisskrá reiknast líka til aukinnar arðsemi verkefnisins.
Ég varð fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að eyða viku með barnið mitt á gjörgæsludeild Landspítalans haustið 2007 sem staðsett er í gamla Landspítalahúsinu frá 1930 og fara þaðan yfir á nýja barnaspítalann. Ástandið á gjörgæslunni er einu orði sagt skelfilegt þar sem öllu ægir saman gömlu fólki með niðurgang (það er jú á gjörgæslu og getur ekki séð um ýmsa hluti sjálft), litlum börnum sem haldið er sofandi o.s.frv. allt inni á sömu stofunni. Í hringiðunni miðri er starfsfólkið í stöðugu "slökkvistarfi" að reyna að bjarga því sem bjargað verður. Ástandið er mun verra en ég hefði nokkurn tímann trúað. Það var draumi líkast að komast yfir á nýja barnaspítalann þar sem allt var til taks sem til þurfti.
Einn sparnaðarliður sem ekki er minnst á en ég er viss um að teljist með er að ég er sannfærður um að álag á starfsfólk verði eðlilegra og að fjarvistir þess minnki sem aftur þýðir sparnað upp á hundruð milljóna á ári á 5000 manna vinnustað, stærsta vinnustað landsins.
Ég held að þessi framkvæmd muni borga sig upp hraðar en fólk heldur og ég held líka að krepputímar séu hárréttur tímapunktur til að fara í þessar aðgerðir bæði til þess að fá innspýtingu í hagkerfið og draga úr verðbólguáhrifum sem yrðu til staðar á þennslutímum og líka til þess að draga úr kostnaði í heilbrigðiskerfinu.
Sjúkrahúsið kostar 82 milljarða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.1.2009 | 14:25
Sjálfhætt ef Samkeppniseftirlitið bannar gjörninginn
REI-menn bera vitni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |